Innlent

Árs fangelsi fyrir í­trekuð brot gegn sam­býlis­konu og stjúp­dóttur

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Landsréttur hækkaði refsinguna um þrjá mánuði, en í héraðsdómi hafði maðurinn verið dæmdur í 9 mánaða fangelsi.
Landsréttur hækkaði refsinguna um þrjá mánuði, en í héraðsdómi hafði maðurinn verið dæmdur í 9 mánaða fangelsi. Vísir/Vilhelm

Karlmaður var nýlega dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir brot í nánu sambandi gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni og dóttur hennar, fyrir að hafa ítrekað ógnað lífi þeirra og velferð með líkamlegu og andlegu ofbeldi. Þetta er í þriðja sinn sem maðurinn hlýtur dóm fyrir brot gegn mæðgunum.

Landsréttur kvað upp dóm í málinu í gær en maðurinn var dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir brot gegn nálgunarbanni árið 2017 og tveimur árum síðar var hann aftur dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir annað brot gegn nálgunarbanni.

Stórfelld brot í nánu sambandi

Maðurinn var í þessu máli ákærður fyrir stórfelld brot í nánu sambandi gagnvart fyrrverandi sambýliskonunni. Í ákæru kemur fram að hann hafi í eitt sinn haldið henni fastri og öskrað á hana ítrekað með ljótum og meiðandi orðum, allt þar til stjúpdóttirin kom inn í herbergið og ýtti ákærða ofan af móður hennar.

Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa hrint sambýliskonunni fyrrverandi í gólfið og kastað glerglasi í áttina að henni. Maðurinn var þar að aukiákærður fyrir fjölmörg brot gegn henni af sama toga og sakfelldur fyrir þau öll. Hann játaði brot sín skýlaust fyrir dómi.

Brot gegn barnaverndarlögum

Hann var einnig sakfelldur fyrir brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa ítrekað beitt sambýliskonuna fyrrverandi ofbeldi í viðurvist dóttur hennar og beitt stjúpdóttirina þar að auki ítrekuðu andlegu ofbeldi yfir tveggja ára tímabil.

Landsréttur sagði alveg ljóst að brotin væru mörg og alvarleg. Þau væru þar að auki endurtekin og náðu yfir langt tímabil. Ákærði ætti sér engar málsbætur aðrar en að hafa játað að hafa framið brotin. Hann var því dæmdur í 12 mánaða fangelsi og til að greiða fyrrverandi sambýliskonunni milljón í miskabætur og dóttur hennar 600 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×