Skoðun

Meiri sam­vinnu, meiri hag­ræðingu, meiri Við­reisn

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Sveitarfélögin á höfðuborgarsvæðinu eiga að vinna miklu meira saman. Það eru gríðarlega mikil tækifæri til hagræðingar á nánast öllum sviðum. Það er mikil sóun falin í því að hvert einasta sveitarfélag sé að vinna frá grunni stefnu í einstaka málaflokkum. Tökum sem dæmi þá miklu vinnu og peninga sem Hafnarfjörður lagði í menntastefnu sína sem mögulega verður lögð fram fyrir lok kjörtímabilsins. Þær eru óhemju margar klukkustundirnar sem þessi vinna hefur kostað útsvarsgreiðendur Hafnarfjarðar. Af hverju var ekki t.d. notast við frábæra menntastefnu Reykjavíkurborgar og hún aðlöguð að hafnfirskum aðstæðum? Það getur varla verið svona gríðarlegur munur á menntastefnu sveitarfélaga sem liggja nánast hlið við hlið, sveitarfélaga þar sem fólk flytur töluvert á milli. Það er ekki eins og fólk sé að flytja á milli heimsálfa þegar það ákveður að færa sig um set á höfðuborgarsvæðinu.

Sömu sögu má segja um rafræna stjórnsýslu, hana má einfalda og samræma og spara þannig mikla fjármuni sem hægt er að nota í þjónustu við íbúa. Stóra verkefni næstu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar er að koma rekstrinum í sjálfbært horf. Það tekst einungis ef samstaða næst um meiri samvinnu á milli sveitarfélaganna þar sem vinnu og kostnaði er deilt á milli sveitarfélaganna. Notum peningana og tíma starfsfólks í að þjónusta fólkið, ekki í kerfið.

Meiri samvinnu, meiri hagræðingu, meiri Viðreisn.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. 




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×