Innlent

Snarpir jarðskjálftar í Grindavík

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Snarpir jarðskjálftar hafa fundist í Grindavík undanfarinn klukkutímann.
Snarpir jarðskjálftar hafa fundist í Grindavík undanfarinn klukkutímann. Vísir/Egill

Jarðskjálfti 3,3 að stærð mældist rétt norðaustur af Grindavík nú klukkan tuttugu mínútur yfir tvö. Fjöldi skjálfta hefur mælst við Grindavík núna um hádegi en þetta er sá stærsti. 

Einn skjálfti til viðótar hefur náð stærð 3 en sá reið yfir klukkan þrjár mínútur yfir tvö. Sá næsti þar á eftir var 2,9 að stærð og reið yfir klukkan korter í tvö. 

„Þetta eru þrír skjálftar sem eru í kring um þrjá að stærð, aðrir eru smáskjálftar eða nokkuð minni. Þetta eru rúmlega sjötíu skjálftar sem hafa mælst á þessari klukkustund síðan hrinan byrjaði,“ segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Hér má sjá skjálftavirknina á landinu. Rauðu punktarnir marka skjálftavirkni sem er innan við sólarhrings gömul.Veðurstofa Íslands

Hann segir skjálftana hafa fundist vel í Grindavík en tilkynningar hafi ekki borist til Veðurstofu annars staðar frá. 

Þá hafi skjálftavirkni verið regluleg í Grindavík undanfarna mánuði en þá oftast smáskjálftavirkni. Síðast hafi jarðskjálftahrina riðið yfir dagana 18. og 19. mars þegar um 170 skjálftar mældust á einum sólarhring en enginn þeirra yfir 3 að stærð. 

Síðast mældist skjálfti yfir þremur á svæðinu þann 14. febrúar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×