Viðskipti innlent

Tekur við starfi markaðs­stjóra Kaptio

Atli Ísleifsson skrifar
Alondra Silva Munoz.
Alondra Silva Munoz. aðsend

Hugbúnaðarfyrirtækið Kaptio hefur ráðið Alondru Silva Munoz sem markaðsstjóra fyrirtækisins. Hún mun stýra teymi innan Kaptio sem hafi það að markmiði að auka sýnileika og vöxt félagsins.

Í tilkynningu segir að Alondra hafi umtalsverða reynslu af stjórnun, alþjóðaviðskiptum og markaðsmálum. Hún hafi sinnt samskiptum og markaðsmálum í um áratug, í fimm löndum og fjölmörgum atvinnugreinum, og hafi starfað hér á landi í nokkur ár.

„Árin 2017-2020 stýrði Alondra markaðs- og sölumálum hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Troll Expeditions, á miklu vaxtarskeiði fyrirtækisins. Árið 2020 tók hún við starfi sem ráðgjafi og síðar sem markaðsstjóri hjá Beedle, sem er íslenskt sprotafyrirtæki í tæknigeiranum. Hjá Beedle bar Alondra meðal annars ábyrgð á innleiðingu á nýrri markaðsstefnu félagsins á alþjóðamörkuðum, og vann m.a. í samstarfi með Microsoft, en viðskiptavinum félagsins fjölgaði mikið á þessu tímabili.

Alondra er með B.A. gráðu í málvísindum frá Universidad de Santiago de Chile þar sem hún stundaði jafnframt meistaranám í sama fagi. Þá er hún með M.A gráðu í Ameríkufræðum frá Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni.

Kaptio er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki sem býður bókunar- og viðskiptatengslahugbúnað fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Það var stofnað árið 2012 og er með höfuðstöðvar í Reykjavík en starfsemi í Bretlandi og Kanada. Alls starfa um fimmtíu manns hjá félaginu og eru helstu hluthafar þess Frumtak og Nýsköpunarsjóður ásamt stofnendum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×