Erlent

Vaktin: Kjarna­kljúfur varð fyrir tjóni eftir sprengju­á­rás

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir, Viktor Örn Ásgeirsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Frá Karkív. Myndin er ekki af kjarnakljúfnum sem fjallað er um í fréttinni.
Frá Karkív. Myndin er ekki af kjarnakljúfnum sem fjallað er um í fréttinni. MARCUS YAM / LOS ANGELES TIMES via Getty

Kjarnakljúfur í borginni Karkív í norðausturhluta Úkraínu hefur orðið fyrir tjóni eftir víðtækar sprengju- og stórskotaliðsárásir Rússa á svæðið. Ekki hefur enn verið hægt að meta umfang tjónsins, þar sem árásir Rússa eru nánast linnualausar.

Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í allan dag.

Helstu vendingar:

  • Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur lýst því yfir að fyrsti hluta „sérstöku hernaðaraðgerðanna í Úkraínu“ sé meira og minna lokið. Rússland muni nú einblína á að frelsa Donbas-héröðin undan oki Úkraínu. 
  • Joe Biden Bandaríkjaforseti er í heimsókn í Póllandi til að sýna ríkjum Austur-Evrópu stuðning. Hann mun funda með Andrzej Duda forseta Póllands í dag, hitta úkraínska flóttamenn og funda með Rafa Traskowski borgarstjóra Varsjár um viðbrögð borgarinnar við flóttamannastrauminum. 
  • Sameinuðu þjóðirnar hafa staðfest að 1.081 almennur borgari hafi látið lífið í átökunum og 1.707 særst. SÞ segir þó að þessar tölur séu að öllum líkindum mun hærri í raunveruleikanum. Yfirvöld í Úkraínu hafa þá lýst því yfir að 136 börn hafi fallið í átökunum. 
  • Vladimír Pútín Rússlandsforseti staðfesti í gær innleiðingu lagasetningar sem kveður á um að hver sá sem birti „falskar upplýsingar“ um aðgerðir Rússlands utan landssteinanna eigi yfir höfði sér fimmtán ára fangelsisvist.
  • Rússneska kauphöllin fær að opna aftur á mánudag eftir að hafa verið lokuð í heilan mánuð. Ákvörðun Seðlabankans um það markar stórt skref fyrir Rússa. 



Fleiri fréttir

Sjá meira
×