Erlent

Uppgjafartónn og ofsóknaræði runnið á rússneska ráðamenn

Heimir Már Pétursson skrifar
Joe Biden átti góða stund með bandarískum hermönnum í Jasionka í Póllandi í dag sem nýlega voru sendir til landsins til að efla herstyrk NATO í austur Evrópu.
Joe Biden átti góða stund með bandarískum hermönnum í Jasionka í Póllandi í dag sem nýlega voru sendir til landsins til að efla herstyrk NATO í austur Evrópu. AP/Evan Vucc

Uppgjafartónn og ofsóknaræði er runnið á æðstu ráðamenn Rússlands sem segja Vesturlönd hafa sameinast um að gereyða Rússlandi. Vestrænir leiðtogar heita því að standa saman þar stríðinu ljúki með sneypuför Putins. Nú er talið að minnsta kosti þrjú hundruð manns hafi fallið í árás Rússa á leikhús í Mariupol.

Leiðtogar Vesturlanda samþykktu hertar refsiaðgerðir gegn Rússum, aukinn herafla NATO í aðildarríkjunum í austur Evrópu og aukinn stuðning við Úkraínu á sögulegum fundum leiðtoga NATO, sjö helstu iðnríkja og Evrópusambandsins í gær.

Joe Biden forseti Bandaríkjanna segir Vladimir Putin Rússlandsforseta hafa hugsað NATO og Vesturlöndum þegjandi þörfina lengi.

„Það sem Putin hefur verið að reyna, og ég hef sagt þetta frá því ég var varaforseti, er að sundra NATO. Hann vill frekar eiga við þrjátíu sjálfstæð ríki en þrjátíu ríki í samstarfi með Bandaríkjunum. Án gríns. Ég trúi því einlæglega að þetta hafi verið markmið hans frá upphafi," segir Biden.

Joe Biden forseti Bandaríkjanna og Ursula van der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segja samstöðu Vesturlanda aldrei hafa verið meiri.AP/Evan Vucc

Samkomulag er um að Bandaríkin og Evrópa vinni saman að því að gera Evrópu algerlega óháða gasi og olíu frá Rússlandi og vinni sameiginlega að hraðari orkuskiptum. Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir samstöðu Vesturlanda aldrei hafa verið meiri.

„Við erum staðráðin í að standa saman gegn grimmilegu stríði Rússa. Þetta stríð verður hernaðarleg mistök Putin,“ segir von der Leyen.

Sjá nasista í öllum hornum og skúmaskotum

Samstaða Vesturlanda og áhrif viðamikilla refsiaðgerða þeirra á efnahagslíf Rússlands er greinilega farin að reyna á taugarnar í rússneskum ráðamönnum. Lavrov utanríkisráðherra greip í dag til orðaforða Göbbels áróðurmálaráðherra Þriðja ríkisins og sagði Vesturlönd stefna að gereyðingu Rússlands.

Sergey Lavrov segir Vesturlönd hafa lýst yfir allsherjarstríði gegn Rússum að hætti þýskra nasista.AP/Kirill Kudryavtsev

„Í dag var lýst yfir fjölþátta allsherjarstríði gegn okkur. Þetta hugtak sem var notað af nasistum í Þýskalandi er nú á vörum margra evrópskra stjórnmálamanna þegar þeir ræða hvað þeir vilja gera við Rússneska sambandlýðveldið,“ sagði Lavrov.

Og Putin gerði Rússland að fórnarlambi stríðsins á fjarfundi með fulltrúum menningarlífsins í dag. Sagði Vesturlönd hafa bannað rússneska tónlist, menningu og bókmenntir.

Vladimir Putin sagði á fjarfundi með fólki úr menningarlífinu í dag að Vesturlönd hafi bannað rússneska tónlist, bókmenntir og menningu.AO/Mikhail Klimentyev

„Síðast var farið í stóra herðferð af þessu tagi til að eyða óæskilegum bókmenntum á tímum nasista í Þýskalandi fyrir 90 árum,“ sagði Putin. Hann minntist hins vegar ekkert á múlbindingu fjölmiðla í Rússlandi, handtökur á fólki sem vogaði sér að mótmæla honum og morð dauðasveita hans á andstæðingum hans.

Örvæntingin nær einnig til vígstöðvanna því í dag sagði rússneska ITAR-TASS fréttastofan frá því að Rússar teldu sig hafa náð markmiðum sínum í hinum sérstöku hernaðaraðgerðum eða innrásinni í Úkraínu og ætluðu aðeinbeita sér að því að tryggja yfirráð yfir Donbashéraði. Enda hefur úkraínski herinn rekið Rússa á flótta víða. Nú síðast í dag frá bæ skammt vestur af Kænugarði sem Rússar höfðu hertekið áður.

Stórskotaliðs-, eldflauga-, og loftárásir Rússa á borgir og bæi hafa fellt þúsundir óbreyttra borgara og skilið eftir sig gífurlega eyðileggingu. Hér stendur aldraður maður fyrir framan sprengt fjölbýlishús í borginni Kharkiv.AP/Efrem Lukatsky

Mannfalll Rússa er mikið, allt að 12 þúsund manns, en þeir hafa líka skilið eftir sig töluvert mannfall og gríðarlega eyðileggingu í Úkraínu. Í dag var skýrt frá því að talið væri að um 300 manns hefðu látist í sprengjuárás Rússa á leikhús í Mariupol á miðvikudag í síðustu viku. Þar höfðu um þúsund manns leitað skjóls í loftvarnabyrgi í kjallara.

Biden Bandaríkjaforseti flaug til Póllands í dag til fundar við ráðmenn þar. Hann heilsaði einnig upp á bandaríska hermenn sem voru nýlega sendir til að styrkja varnir NATO í Póllandi og snæddi pizzu með þeim. Og allir vildu hermennirnir fá sjálfu með forseta sínum.


Tengdar fréttir

Rússar segja Vesturlönd hafa lýst allsherjarstríði á hendur Rússlandi að hætti nasista

Utanríkisráðherra Rússlands segir Vesturlönd hafa lýst yfir allsherjarstríði við Rússland að hætti nasista með það að markmiði að tortíma landinu. Bandaríkin og Evrópusambandið ætla að vinna saman að því að Putin Rússlandsforseti geti ekki lengur beitt aðgangi Evrópu að rússneskri orku sem vopni í samskiptum við bandalagið.

Neyðarsöfnun til Úkraínu í gegnum listaverka uppboð

Myndlistargalleríið Listval stendur nú fyrir listaverka uppboði þar sem allur ágóði sölunnar rennur óskiptur til neyðarsöfnunar Þroskahjálpar fyrir fatlað fólk í Úkraínu. Uppboðið hófst í gær og stendur til 31. mars næstkomandi.

Úkraínumenn snúa vörn í sókn

Vísbendingar eru uppi um að Úkraínumönnum sé að takast að snúa vörn í sókn á sumum svæðum og setja áætlanir Rússa í enn frekara uppnám. Yfirvöld í Úkraínu segja þeim hafa tekist að hrekja Rússa til baka, meðal annars norður af Kænugarði.

Zelenskyy gagnrýnir Vesturlönd fyrir skort á vopnum

Úkraínuforseti sakar Rússa um að nota fosfórsprengjur í stríðinu í Úkraínu og gagnrýnir Vesturlönd fyrir að útvega Úkraínumönnum ekki flugvélar og skriðdreka. Innrás Rússa sé aðeins byrjunin á árásum þeirra á Evrópuþjóðir nái þeir sínu fram gagnvart Úkraínu.

Rússar uppskera gerbreytt og öflugra NATO með innrásinni

Framkvæmdastjóri NATO segir innrás Rússa í Úkraínu hafa breytt stefnu bandalagsins varanlega en leiðtogar þess ákváðu í dag að efla herafla sinn í austur Evrópu verulega. Rússar áskilja sér rétt til notkunar kjarnorkuvopna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×