Erlent

Biden segir Pútín „kominn út í horn“ og hann íhugi notkun efnavopna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden hefur einnig varað við netárásum af hálfu Rússa, líkt og sést á tístinu í fréttinni.
Biden hefur einnig varað við netárásum af hálfu Rússa, líkt og sést á tístinu í fréttinni. epa

Falskar ásakanir Rússa um að Úkraína hafi verið að þróa og búi að lífefna- og efnavopnum er „augljóst merki“ um að Vladimir Pútín Rússlandsforseti hyggist beita slíkum vopnum.

Þetta sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti í gær.

Hann sagði Pútín áður hafa beitt efnavopnum og að menn ættu að vera vakandi fyrir því sem væri handan við hornið. Biden sagði Rússlandsforseta meðvitaðan um þær alvarlegu afleiðingar sem notkun slíkra vopna myndi hafa í för með sér en útlistaði þær ekki.

Biden sagði Pútín „kominn út í horn“ og umræða um að Bandaríkjamenn ættu lífefna- og efnavopna í Evrópu væri undirbúningur fyrir notkun Rússa á umræddum vopnum.

Rússar hafa ítrekað sakað Bandaríkjamenn og Úkraínumenn um að hafa staðið að þróun efna- og kjarnorkuvopna í Úkraínu. Þá hafa þeir sömuleiðis sakað Úkraínumenn um að ráðast á eigin borgara til að geta kennt Rússum um.

Þetta hafa þeir meðal annars gefið í skyn þegar þeir hafa sagst ekki ráðast á almenna borgara, þrátt fyrir mýmörg dæmi sem sanna hið gagnstæða.

Bandarísk hernaðaryfirvöld segjast hafa óyggjandi sannanir fyrir því að Rússar hafi framið stríðsglæpi í Úkraínu. Biden sagði í síðustu viku að Pútín væri „stríðsglæpamaður“ og „óþokki“, sem hefur valdið gríðarlegri reiði í Moskvu.

Sendiherra Bandaríkjanna í borginni er sagður hafa verið kallaður á teppið vegna ummælanna og þá segjast Rússar nú velta því fyrir sér að slíta öllu stjórnmálasambandið við Bandaríkin.

Það gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, að því gefnu að fulltrúar ríkjanna hætti alveg að tala saman, en sérfræðingar eru sammála um mikilvægi þess að ákveðnum boðleiðum sé haldið opnum til að koma í veg fyrir misskilning sem gæti leitt til kjarnorkustríðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×