Íslenski boltinn

Hannes hættur eftir glæstan feril: „Eitthvað sem mig óraði ekki fyrir í mínum villtustu draumum“

Sindri Sverrisson skrifar
Hannes Þór Halldórsson glaðbeittur eftir jafnteflið fræga við Argentínu á HM 2018, þar sem hann varði vítaspyrnu Lionels Messi.
Hannes Þór Halldórsson glaðbeittur eftir jafnteflið fræga við Argentínu á HM 2018, þar sem hann varði vítaspyrnu Lionels Messi. EPA-EFE/PETER POWELL

Hannes Þór Halldórsson, sá markvörður sem leikið hefur flesta landsleiki fyrir Ísland, hefur ákveðið að leggja hanskana á hilluna.

Hannes lauk ferli sínum með Val en framtíð hans hefur verið í óvissu eftir að félagið fékk óvænt markvörðinn Guy Smit og gerði síðar starfslokasamning við Hannes.

Hannes, sem verður 38 ára í næsta mánuði, var aðalmarkvörður Íslands í áratug og varði markið á stærstu stundum í sögu landsliðsins, til að mynda í lokakeppni EM 2016 og HM 2018, þar sem hann varði meðal annars vítaspyrnu Lionels Messi í fyrsta HM-leik Íslands.

„Eftir 17 ár í meistaraflokki og 31 ár í fótbolta er kominn tími á að leggja hanskana á hilluna,“ skrifar Hannes á Facebook.

„Ég hef kynnst ógrynni af góðu fólki á þessum árum, unnið með mörgum frábærum þjálfurum, eignast vini fyrir lífstíð og upplifað ótrúlegar stundir. 10 tímabil í efstu deild, 77 landsleikir, 2 stórmót, 3 Íslandsmeistaratitlar, 2 bikarmeistaratitlar og 6 ár í atvinnumennsku er eitthvað sem mig óraði ekki fyrir að upplifa í mínum villtustu draumum. Fjölskylda, liðsfélagar, þjálfarar, stuðningsfólk og allir sem hafa hjálpað mér à leiðinni, takk fyrir mig,“ skrifar Hannes.

Hannes hóf stórmerkilegan feril sinn með Leikni í Breiðholti en lék einnig með Aftureldingu, Stjörnunni, Fram og KR hér á landi áður en hann festi sig í sessi sem aðalmarkvörður Íslands og hélt út í atvinnumennsku. Hannes lék í Noregi, Hollandi, Danmörku og Aserbaídsjan.

Hannes lék sinn fyrsta landsleik í september árið 2011, þá orðinn 27 ára gamall, og hélt markinu hreinu í 1-0 sigri gegn Kýpur í undankeppni EM. Skömmu síðar tók Lars Lagerbäck við þjálfun íslenska liðsins og undir hans stjórn varð Hannes einn af lykilmönnunum á bakvið þá velgengni íslenska liðsins sem vakti heimsathygli.

Hannes Þór Halldórsson vakti heimsathygli með frammistöðu sinni í 1-1 jafnteflinu gegn Argentínu á HM 2018, í fyrsta HM-leik í sögu Íslands, og myndavélarnar voru á honum þegar hann fagnaði með stuðningsmönnum eftir leik.VÍSIR/VILHELM

Hannes lék 77 landsleiki og sló met Birkis Kristinssonar yfir flesta landsleiki íslenskra markvarða. Síðasti landsleikur hans var gegn Þýskalandi á Laugardalsvelli í september í fyrra.

Hannes varð Íslandsmeistari þrisvar sinnum, tvisvar með KR og einu sinni með Val, og bikarmeistari tvisvar með KR. Hann lék alls 205 leiki í efstu deild hér á landi og 39 leiki í neðri deildum, en lék sem atvinnumaður í sex ár áður en hann sneri heim til Íslands snemma árs 2019 og gerði samning við Val sem gilda átti út árið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×