Erlent

Líður öruggari með hverjum deginum sem líður: „Ég veit ekki hvað ég taldi margar hríð­­skota­byssur“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Óskar Hallgrímsson er búsettur í Kænugarði.
Óskar Hallgrímsson er búsettur í Kænugarði. Stöð 2

Ís­lendingur sem bú­settur er í Kænu­garði óttast ekki að Rússar séu að undir­búa á­hlaup á borgina. Hann segir til­raunir Rússa til að ná úkraínskum borgum á sitt vald hafa mis­heppnast hrapa­lega. Næstu tveir dagar komi til með að segja mikið um fram­hald stríðsins.

Er­lendir miðlar hafa í morgun greint frá því að Rússar gætu verið að undir­búa á­hlaup á Kænu­garð, höfuð­borg Úkraínu.

Her­gagna­lest þeirra hafi dreift sér í kring um borgina og Rússum orðið nokkuð á­gengt í á­rásum sínum á bæi og svæði utan hennar.

Her­sveitir nálgist Kænu­garð og séu komnar í um 25 kíló­metra fjar­lægð frá borginni.

Í vaktinni hér að neðan er hægt að nálgast allar nýjustu fréttir af gangi mála í Úkraínu:

Óskar Hall­gríms­son sem býr með úkraínskri eigin­konu sinni Mariiku í Kænu­garði segir þessar fréttir ekki gefa alveg rétta mynd af stöðunni.

Sér­fræðingar telji að her­gagna­lestin hafi dreift úr sér til að koma sér úr opinni skot­línu Úkraínu­manna.

„Bara til þess að taka sig saman upp á nýtt af því að skipu­lagið eins og það hefur verið að ganga hingað til það hefur ekki gengið upp,“ segir Óskar.

Ró yfir Kænugarði

Rússum hafi gengið afar illa að vinna land­svæði í kring um Kænu­garð.

„Þeim er al­gjör­lega haldið við og borgin sjálf er mjög mjög vel varin. Bæði á út­jaðrinum og í kring um hana og síðan bara inni í borginni. Ég meina ég fór út í apó­tek í morgun og ég veit ekki hvað ég taldi margar hríð­skota­byssur á leiðinni og sand­poka og ég veit ekki hvað og hvað,“ segir Óskar.

Honum líði því á­gæt­lega öruggum í Kænu­garði eins og er.

„Mér líður alltaf betur og betur varðandi mitt eigið öryggi með hverjum degi sem líður upp á það að gera að það er að færast svo mikil ró yfir borgina sjálfa hérna. Það eru ekki búnir að vera neinir skot­bar­dagar, það eru engir Rússar inni í borginni,“ segir Óskar.

Næstu dagar skipti sköpum

Rússar virðast hafa gefið í á­rásir sínar á ýmsar borgir í morgun. Óskar er þó bjart­sýnn enda hafi þeim gengið illa að ná borgum á sitt vald frá því að þeir réðust inn í landið.

„Meira að segja á stöðum eins og í Mariu­pol. Að Mariu­pol sem er gjör­sam­lega búið að bomba í klessu að þeir ná ekki inn fyrir Mariu­pol. Sem er alveg ó­trú­legt miðað við að hún sé raf­magns­laus, vatns­laus, hita­laus. En Úkraínu­her hleypir þeim ekki inn,“ segir Óskar.

Næstu dagar muni skipta sköpum í stríðinu.

„Næstu svona 48 tímar munu segja okkur hel­víti mikið um hvernig næstu vikur verða. Svona hvernig þetta stríð mun þróast. En það er náttúru­lega ó­mögu­legt að spá fyrir um stríð,“ segir Óskar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×