Erlent

Segja ráðamenn í Kína hafa sagt Rússum að bíða með innrásina þar til eftir Ólympíuleikana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Xi Jinping, forseti Kína, á opnunarhátíð Ólympíuleikanna. Hann fundaði með Vladimir Pútín Rússlandsforseta skömmu áður en óvíst er hvort þeir áttu viðræður um fyrirhugaða innrás Rússa í Úkraínu.
Xi Jinping, forseti Kína, á opnunarhátíð Ólympíuleikanna. Hann fundaði með Vladimir Pútín Rússlandsforseta skömmu áður en óvíst er hvort þeir áttu viðræður um fyrirhugaða innrás Rússa í Úkraínu. epa/Mark Cristino

Ráðamenn í Kína vissu af fyrirætlunum Rússa um að ráðast inn í Úkraínu ef marka má gögn sem yfirvöld í Bandaríkjunum og Evrópu hafa undir höndum. Komu þeir þeim skilaboðum á framfæri við Rússa að láta ekki til skarar skríða fyrr en að Ólympíuleikunum, sem haldnir voru í Pekíng, væri lokið.

New York Times hefur eftir embættismönnum í Washington og heimildarmanni í Evrópu að gögnin séu talin áreiðanleg en mönnum komi hins vegar ekki saman um túlkun þeirra. 

Til að mynda liggi ekki ljóst fyrir á hvaða stigi umræður um tímasetningu innrásarinnar fóru fram og hvort þær voru ræddar af forsetum Kína og Rússlands þegar þeir hittust fyrir leikana í byrjun febrúar.

Upplýsingar um samskiptin lágu hins vegar fyrir áður en Rússar létu til skarar skríða og voru ræddar af ráðamönnum Vesturveldanna í aðdraganda innrásarinnar.

New York Times innti fulltrúa Kína í Washington eftir viðbrögðum við upplýsingunum og fékk þau svör að um væri að ræða tilhæfulausar vangaveltur sem væri ætlað að koma sök yfir á Kína og láta Kínverja líta illa út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×