Innlent

Telur hugsanlegt að um 70% landsmanna hafi smitast

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalækir segir mikilvægt að fólk átti sig á að COVID-19 sé enn stórt heilbrigðisvandamál á Íslandi og að mikilvægt sé að tefja úbreiðslu veirunnar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalækir segir mikilvægt að fólk átti sig á að COVID-19 sé enn stórt heilbrigðisvandamál á Íslandi og að mikilvægt sé að tefja úbreiðslu veirunnar. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir áætlar að fjöldi þeirra sem hafi smitast af kórónuveirunni sé um tvöfalt meiri en hafi formlega greinst sýktur. Hugsanlegt sé að um 70% landsmanna hafi nú þegar smitast af COVID-19. Þess vegna sé ekki óvarlegt að ætla að hámarki faraldursins verði náð innan tveggja til þriggja vikna og að í framhaldi af því fari nýgreiningum að fækka.

Þetta kemur fram í nýjum pistli sem Þórólfur skrifar og birtir á COVID.is.

Þórólfur segir að veiran sé í mikilli útbreiðslu þessa dagana. Hann vill halda því til haga að þrátt fyrir að heildarfjöldi tekinna sýna í samfélaginu hafi fækkað þýði það ekki að daglegum smitum hafi fækkað.

Þórólfur segir álagið í heilbrigðiskerfinu vera mikið.

„Á Landspítala leggjast nú inn um 10 einstaklingar daglega með eða vegna COVID-19 en heldur færri útskrifast. Í dag liggja inn á spítalanum 55 manns með/vegna sjúkdómsins og þar af þrír á gjörgæsludeild, allir á öndunarvél.“

Á sjúkrahúsinu á Akureyri eru nú sjö inniliggjandi með sjúkdóminn og þar af er einn á gjörgæsludeild í öndunarvél.

„Þannig er COVID-19 ennþá að valda alvarlegum veikindum þó þau séu hlutfallslega fátíðari en í fyrri bylgjum faraldursins.“

Fólk þurfi að átta sig á að COVID-19 sé enn alvarlegt vandamál

Hann segir mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að COVID-19 sé á þessum tímapunkti enn stórt heilbrigðisvandamál á Íslandi þrátt fyrir að opinberum sóttvarnaráðstöfunum í samfélaginu hafi verið aflétt.

„Því eru allir hvattir til að viðhafa áfram einstaklingsbundnar sóttvarnir sem miða að því að tefja útbreiðslu COVID-19 og þar með koma í veg fyrir óviðráðanlegt álag á heilbrigðiskerfi okkar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×