Enski boltinn

Gamli Liverpool-maðurinn verður landsliðsþjálfari eftir skipun forsetans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rigobert Song fagnar marki með Liverpool liðinu í desember 1999.
Rigobert Song fagnar marki með Liverpool liðinu í desember 1999. Getty/Michael Steele /Allsport

Rigobert Song er á góðri leið með að verða næsti landsliðsþjálfari Kamerún eftir góða hjálp frá forseta landsins.

Hinn 45 ára gamli Song mun þar taka við starfinu af Toni Conceicao. Undir stjórn Conceicao þá náði Kamerún þriðja sætinu í Afríkukeppninni á dögunum en liðið var á heimavelli.

Song er leikjahæsti landsliðsmaður Kamerún frá upphafi með 137 leiki fyrir Ljónin. Hann spilaði með landsliðinu frá 1993 til 2010.

Í yfirlýsingu frá Kamerún segir að landsliðið þurfi nýtt líf. Þar kemur einnig fram að ráðningin sé komin til eftir beina fyrirskipun frá forseta landsins, Paul Biya.

„Eftir fyrirskipun frá forseta landsins, þá mun Rigobert Song taka við landsliðsþjálfarastarfinu af herra Antonio Conceicao,“ sagði Narcisse Mouelle Kombi, íþróttamálaráðherra landsins.

„Kamerúnska knattspyrnusambandið mun nú gera allar ráðstafanir þannig að þessi ráðning geti orðið að veruleika,“ sagði Kombi.

Það er stutt í næsta leik því Kamerún spilar í umspili um sæti á HM seinna í þessum mánuði.

Song spilaði með Liverpool frá 1999 til 2000 en hann fór þaðan til West Ham. Song spilaði einnig á Ítalíu, í Þýskalandi, Frakklandi og Tyrklandi á sínum ferli.

Hann þjálfaði heimalandslið Kamerún frá 2015 til 2018 en það er landsliðsúrtak leikmanna sem spila í Kamerún. Song stýrði líka 23 ára landsliði Kamerún og hann ætti því að hafa góða yfirsýn yfir þá leikmenn sem eru að koma upp í landinu.

Song spilaði 34 deildarleiki með Liverpool á sínum tíma. Einn af fáum leikjum hans með liðinu tímabilið 2000-01 var Evrópuleikur en Liverpool vann UEFA-bikarinn þetta tímabil. Það var hans eini titill á Anfield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×