Golf

Zach Johnson verður fyrirliði bandaríska Ryder-liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zach Johnson hefur mikla reynslu og náði meðal annars að keppa á 69 risamótum í röð.
Zach Johnson hefur mikla reynslu og náði meðal annars að keppa á 69 risamótum í röð. AP/Matt York

Zach Johnson fær það hlutverk að leiða lið Bandaríkjamanna á næsta Ryder-bikar í golfi en hann fer næst fram í Evrópu.

Associated Press hefur heimildir fyrir því að Zach taki við starfinu af Steve Stricker en PGA ætlaði að tilkynna um næsta fyrirliða á blaðamannafundi á mánudaginn kemur. Ryder-bikarinn fer næst fram 29. september til 1. október 2023 hjá Marco Simone golfklúbbnum á Ítalíu.

Steve Stricker stýrði bandaríska liðinu til 19-9 sigurs í síðasta Ryderbikar í fyrrahaust.

Johnson fær það stóra verkefni að reyna að vinna bikarinn á evrópskri grundu en því hefur bandaríska landsliðið ekki náð í þrjátíu ár eða síðan liðið vann á Spáni árið 1993. Hann hefur reynslu af Ryderbikarnum sem bæði keppandi og aðstoðarfyrirliði.

Johnson hefur keppt fimm sinnum með bandaríska landsliðinu í Ryderbikarnum. Hann var í tapliði í fögur fyrstu skiptin (2006, 2010, 2012 og 2014) en vann Ryderbikarinn með bandaríska liðinu árið 2016.

Zach hefur unnið tvö risamót á ferlinum, vann Mastersmótið árið 2007 og Opna breska meistaramótið árið 2015.

Í júlí í fyrra þá varð Zach að hætta við keppni á Opna breska meistaramótinu vegna kórónuveirusmits en hann hafði þá keppt á 69 risamótum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×