Erlent

Engin niðurnegld áform um leiðtogafund að sögn Rússa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Talsmaður Kremlarstjórnar segir að ekki sé búið að negla niður áform um að halda leiðtogafund.
Talsmaður Kremlarstjórnar segir að ekki sé búið að negla niður áform um að halda leiðtogafund. Mikhail Svetlov/Getty

Rússnesk yfirvöld segja að sem stendur séu engin niðurnegld áform um að Vladimír Pútín Rússlandsforseti og kollegi hans frá Bandaríkjunum, Joe Biden, hittist á leiðtogafundi til að ræða spennuna á landamærum Rússlands og Úkraínu.

Greint var frá því í morgun að Biden hafi, í stórum dráttum, fallist á leiðtogafund með Pútín Rússlandsforseta til að ræða ástandið í Úkraínu.

Það eru Frakkar sem stinga upp á leiðtogafundinum en Hvíta húsið hefur þegar sagt að fundurinn geti aðeins farið fram ráðist Rússar ekki inn í Úkraínu. Hugmyndin með fundi leiðtogana er að reyna að leysa deiluna sem nú er uppi en spennan á svæðinu hefur ekki verið eins mikil síðan á dögum kalda stríðsins.

Tillaga Frakka var lögð fram eftir að Emmanuel Macron forseti hafði rætt við Pútín í síma á tveimur fundum í rúma þrjá klukkutíma samtals.

Dmitry Peskov sagði við blaðamenn í dag að engar niðurnegldar áætlanir væru uppi um að halda slíkan leiðtogafund, en að möguleikinn væri vissulega fyrir hendi.

Yfirvöld í Bandaríkjunum áætla að um 170 til 190 þúsund rússneskir hermenn séu nú við landamæri Úkraínu í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Þessar tölur innihalda einnig aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu en þeir eru hliðhollir Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×