Erlent

Biden fellst á leið­toga­fund með Pútín

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur samþykkt leiðtogafund með Vladimír Pútín Rússlandsforseta.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur samþykkt leiðtogafund með Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Getty/Peter Klaunzer

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur í stórum dráttum fallist á leiðtogafund með Vladimír Pútín Rússlandsforseta til að ræða ástandið í Úkraínu. 

Það eru Frakkar sem stinga upp á leiðtogafundinum en Hvíta húsið hefur þegar sagt að fundurinn geti aðeins farið fram ráðist Rússar ekki inn í Úkraínu. Hugmyndin með fundi leiðtogana er að reyna að leysa deiluna sem nú er uppi en spennan á svæðinu hefur ekki verið eins mikil síðan á dögum kalda stríðsins. 

Tillaga Frakka var lögð fram eftir að Emmanuel Macron forseti hafði rætt við Pútín í síma á tveimur fundum í rúma þrjá klukkutíma samtals. 

Þá hefur Macron einnig rætt hugmyndina við Biden forseta og til stendur að ræða nánari útlistun fundarins þegar utanríkisráðherrarnir Antony Blinken og Sergei Lavrov hittast á fimmtudag. 

hernaðurEnn eru uppi miklar áhyggjur um að Rússar ráðist inn í Úkraínu en nú eru meira en 150 þúsund rússneskir hermenn staðsettir við landamærin að Úkraínu ef marka má áætlun Bandaríkjamanna. 

Pútín hefur samþykkt að diplómatísk lausn gangi fyrir. Rússar hafa lýst því yfir við Frakka að þeir muni gera allt sem þeir geti til að tryggja að hægt verði að halda leiðtogafund á næstu dögum. 

Stjórnvöld í Rússlandi hafa kennt Úkraínumönnum um aukna spennu milli ríkjanna og aukinn viðbúnað. Úkraínumenn hafa hafnað ábyrgð og sagt yfirvöld í Moskvu leggja sig fram um að auka viðbúnað á landamærunum í þeirri von að Úkraínumenn svari í sömu mynt.

Rússnesk stjórnvöld segja í yfirlýsingu að engar áætlanir séu um leiðtogafund Pútins og Bidens að svo stöddu. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Rússar hættir við að hætta her­æfingum í Hvíta-Rúss­landi

Rússar hafa hætt við að kalla hermenn sína í Hvíta-Rússlandi aftur heim til Rússlands og þess í stað fært þá nær norðanverðum landamærum Úkraínu. Spennan á svæðinu magnast sífellt og nú búast flestir við innrás Rússa inn í landið á næstu dögum.

Inn­rás Rússa inn í Úkraínu gæti verið yfir­­vofandi

Innrás Rússa inn í Úkraínu gæti verið yfirvofandi á næstu dögum og hefði hörmulegar afleiðingar, að mati leiðtoga sem sótt hafa öryggisráðstefnu í Munchen í dag. Íslenskur sérfræðingur segir ómögulegt að segja til um hvað Pútín ætli sér.

Aðskilnaðarsinnar setja á almenna herkvaðningu

Leiðtogar aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu, sem studdir eru af Rússlandi, hafa lýst yfir allsherjar herkvaðningu í Donetsk og Luhansk. Í gær tilkynntu þeir að almennir borgarar yrðu fluttir úr héruðunum og til Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×