Golf

Svakalegar myndir þegar Oakland Hills brann: Hefur hýst risamót og Ryderinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá húsið hjá Oakland Hills golfklúbbnum brenna.
Hér má sjá húsið hjá Oakland Hills golfklúbbnum brenna. AP/Daniel Mears

Sögulegt klúbbhús Oakland Hills golfvallarins fuðraði nánast upp í miklum bruna í gær. Þetta er einn af virtustu golfvöllum Bandaríkjanna.

Eldurinn er mikið áfall fyrir marg. Klúbbhúsið í Oakland Hills er hundrað ára gamalt og hefur sérsakan sess í huga margra af bestu kylfingum heims.

Oakland Hills golfvöllurinn er nefnilega af hinum þekktari í Bandaríkjunum og hann hefur haldið fjórtán stórmót. Byggingin var frá árinu 1922 en golfvöllurinn er staðsettur fyrir utan Detroit borg.

Á þessum golfvelli hafa farið fram níu risamót og þá var Ryder-bikarinn haldinn þarna árið 2004. Opna bandaríska mótið fór fram í sjötta og síðasta sinn á vellinum árið 1996 en PGA-meistaramótið var haldið þar árið 2008, þá í þriðja sinn.

Fólk í húsinu hringdi í lögregluna klukkan 9.17 um morguninn að staðartíma eftir að hafa fundið reykjarlykt. Það var hins vegar ekki auðvelt fyrir slökkviliðsmenn að finna upptök reykjarins í svo stórri byggingu. Þegar eldurinn blossaði svo upp þá réð enginn við neitt.

„Þetta er mjög erfiður dagur. Þessi dagur er reiðarslag fyrir Oakland Hills, fyrir golfsamfélagið, fyrir klúbbmeðlimina og fyrir starfsfólkið okkar,“ sagði Rick Palmer, forseti Oakland Hills golfklúbbsins.

„Það er svo mikil saga hér. Blessunarlega þá meiddist enginn og allir komust út úr byggingunni,“ sagði Palmer. Að hans mati er byggingin ónýt og verður ekki bjargað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×