Fótbolti

Eyjamenn og Framarar fengu margra milljóna reikning í bakið

Sindri Sverrisson skrifar
Gilson Correia kom til ÍBV 2019 en spilaði aðeins ellefu leiki. Fred kom til Fram 2018 og var í lykilhlutverki við að koma liðinu upp í úrvalsdeild í fyrra.
Gilson Correia kom til ÍBV 2019 en spilaði aðeins ellefu leiki. Fred kom til Fram 2018 og var í lykilhlutverki við að koma liðinu upp í úrvalsdeild í fyrra.

Eyjamenn og Framarar voru krafðir um vel á annan tug milljóna króna eftir að hafa fengið leikmenn án þess að greiða uppeldisbætur til uppeldisfélaga þeirra. Kostnaður ÍBV nam 17 milljónum króna auk lögfræðikostnaðar.

Þetta kom fram í máli Birgis Ólafs Helgasonar í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í dag. Birgir fjallaði um reglur FIFA um uppeldis- og samstöðubætur, með hliðsjón af íslenskri knattspyrnu, í meistaraverkefni sínu við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Birgir sagði ljóst að íslensk félög væru ekki alltaf meðvituð um sínar skyldur og sín réttindi þegar kæmi að uppeldis- og samstöðubótum.

Hann nefndi sérstaklega mál Gilson Correia sem kom frá Portúgal til ÍBV í mars 2019. Correia er fæddur árið 1997 og var því undir 23 ára aldri þegar hann kom til ÍBV, sem þýðir að uppeldisfélög hans gátu gert kröfu um uppeldisbætur.

Sitja eftir með sautján milljóna króna tap út af leikmanni sem lék ellefu leiki

Correia, sem lék aðeins ellefu leiki fyrir ÍBV, kostaði Eyjamenn því á endanum afar háar fjárhæðir:

„Það er leitt að segja það en Eyjamenn voru ekki nægilega vel fræddir um þessar reglur,“ sagði Birgir en uppeldisbætur verður að greiða til þeirra félaga sem leikmenn spila hjá frá 12-23 ára aldurs. Það er svo að uppeldisfélög missi leikmenn ekki frítt frá sér, heldur njóti góðs af því að hafa þjálfað leikmanninn.

„Það sem gerist í kjölfarið á því að hann skrifar undir samning við Eyjamenn er að portúgölsku uppeldisfélögin hans, sem voru nota bene níu talsins, hafa samband og gera kröfu um uppeldisbætur,“ sagði Birgir en portúgölsku félögin leituðu réttar síns hjá FIFA.

„Það fóru mál fjögurra félaga fyrir FIFA og þrjú þessara mála töpuðust af hálfu ÍBV. Eyjamenn reyndu að halda því fram að leikmaðurinn væri bara áhugamaður hjá þeim, ekki atvinnumaður, en þegar leikmenn spila í efstu deild á Íslandi fara þeir á leikmannasamning og það er atvinnumannasamningur í skilningi reglna FIFA. Til að gera langa sögu stutta þá sitja Eyjamenn eftir með 17 milljóna króna tap út af þessum leikmanni,“ sagði Birgir.

Við þessa upphæð bætist lögfræðikostnaður en ÍBV leitaði til alþjóða íþróttadómstólsins, CAS, en hafði ekki erindi sem erfiði.

„Þetta er skólabókardæmi um það hve mikilvægt er að átta sig á því að þegar samið er við erlendan leikmann þá þarf að gæta að því að þú gætir þurft að greiða uppeldisbætur,“ sagði Birgir.

Framarar náðu að prútta

Sambærilegt dæmi er frá því að Framarar fengu til sín Brasilíumanninn Frederico Bello Saraiva, eða Fred eins og hann er kallaður.

Fred kom til Fram vorið 2018 en er fæddur árið 1996 og var því ekki orðinn 24 ára gamall. Hann er enn leikmaður Fram og átti sinn þátt í að koma liðinu upp í úrvalsdeild í fyrra þegar hann skoraði 8 mörk í 20 deildarleikjum.

En þegar öðru tímabili Fred með Fram var að ljúka, sumarið 2019, fengu Framarar bréf frá þýskri lögmannsstofu sem fyrir hönd tveggja brasilískra félaga benti þeim á að þeir þyrftu að borga uppeldisbætur:

„Þetta var reikningur upp á vel yfir tíu milljónir. Tólf, þrettán eða jafnvel fjórtán milljónir,“ sagði Birgir.

„En Framarar voru reyndar klókir. Þeir fóru ekki fyrir CAS eins og ÍBV en höfðu samband við lögmennina í Þýskalandi sem gættu hagsmuna brasilísku félaganna, og færðu rök fyrir því að fjárhæðin væri upp úr öllu valdi fyrir félag eins og Fram, og að þeir hefðu alls ekki átt von á þessu. Þeir náðu að prútta verðmiðann aðeins niður, um einhver 30 prósent, sem bjargaði þeim frá enn stærra tapi,“ sagði Birgir og bætti við að mögulega gætu Eyjamenn náð að semja um lægri greiðslu.

Þá hafi Þróttur Reykjavík lent í sambærilegu máli árið 2019 vegna Rafaels Victor, sem skoraði 12 mörk í 21 deildarleik með liðinu í 1. deildinni, en reikningur Þróttar vegna þess nam um það bil 50.000 evrum sem í dag jafngildir sjö milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×