Fótbolti

Rodman með fyrsta milljón dollara samninginn í kvennadeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trinity Rodman er mikill karakter og skemmtileg eins og pabbi sinn. Hún sló í gegn á fyrsta ári með Washington Spirit liðinu.
Trinity Rodman er mikill karakter og skemmtileg eins og pabbi sinn. Hún sló í gegn á fyrsta ári með Washington Spirit liðinu. Getty/Tony Quinn

Hin nítján ára gamla Trinity Rodman sló í gegn á sínu fyrsta tímabili í bandarísku kvennadeildinni og nú hefur hún fengið metsamning að launum.

Rodman, sem er dóttir NBA goðsagnarinnar Dennis Rodman, valdi fótboltann yfir körfuboltann og sér ekki eftir því í dag.

Hún fór á kostum sem nýliði í NWSL deildinni og hjálpaði Washington Spirit að vinna titilinn.

Washington Spirit ákvað að launa henni með fjögurra ára samning sem mun gefa henni 1,1 milljón Bandaríkjadala eða 140 milljónir íslenskra króna.

Washington Post hefur heimildir um stærð samningsins og að þetta sé stærsti samningurinn í sögu deildarinnar.

Trinity var valin besti ungi leikmaður NWSL deildarinnar eftir að hafa skorað sjö mörk og gefið sjö stoðsendingar í 25 leikjum.

Þegar Rodman kom inn í deildina fékk hún þriggja ára samning sem skilaði henni 42 þúsund dollurum á ári auk húsnæðis og bónusa eða svipað og aðrir leikmenn.

Hámarkslaunin eru 75 þúsund dollarar en liðin geta fært til peninga í rekstri sínum til að auka við launin hjá einstökum leikmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×