Innlent

Guðni í smit­gát og Elísa í sótt­kví eftir að sonur þeirra greindist

Atli Ísleifsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson forseti og Eliza Reid forsetafrú.
Guðni Th. Jóhannesson forseti og Eliza Reid forsetafrú. Vísir/Vilhelm

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er kominn í smitgát og Eliza Reid forsetafrú í sóttkví eftir að sonur þeirra hjóna greindist með kórónuveiruna.

Þetta kemur fram í færslu forsetans á Facebook. Guðni segir að sonur þeirra sé eldhress og geti verið í einangrun heima á Bessastöðum.

„Sjálfur er ég í smitgát eins og forsætisráðherra, þríbólusettur. Ýmsa fundi er unnt að halda með stafrænum hætti en ekki er ráð að vera í margmenni og því þarf að fresta merkum viðburði sem til stóð að halda á morgun, veitingu nýsköpunarverðlauna forseta,“ segir forsetinn, en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi einmitt frá því í gær að hún væri komin í smitgát vegna kórónuveirusmits á heimilinu.

Eliza Reid þarf að vera í sóttkví ásamt hinum börnunum þar sem hún fékk Jansen-bóluefni og aðeins er vika liðin frá þriðja skammti hennar. Við hjónin færum öllum, sem nú eru veik af veirunni, batakveðjur. Sömuleiðis fær allt fólk í sóttkví, einangrun eða smitgát góðar kveðjur. Smitrakningarteymið öfluga hefur sent spurningalista og fylgst með líðan stráksa. Allt er það mjög fagmannlega gert og við lýsum enn aðdáun okkar og þakklæti í garð heilbrigðisstarfsfólks og annarra sem hafa staðið veiruvaktina í rúm tvö ár. Núna virðist hilla undir lok þeirra róttæku aðgerða sem grípa þurfti til í heimsfaraldrinum. Við þreyjum þorrann en vonandi getum við bráðum litið um öxl, strokið um frjálst höfuð og sagt: Ekki fór allt alveg eins og best var á kosið en okkur tókst þetta samt,“ segir Guðni í færslunni.


Tengdar fréttir

For­sætis­ráð­herra í smit­gát á af­mælis­daginn

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er í smitgát vegna kórónuveirunnar, eftir að sonur hennar fékk jákvæða niðurstöðu úr heimaprófi. Frá þessu greinir Katrín á Facebook, en hún á afmæli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×