Viðskipti innlent

Þung staða á húsnæðismarkaði: „Þurfum að huga meira að framboðshliðinni“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Svört staða er uppi á húsnæðismarkaði nú þegar verðbólga er í hæstu hæðum og framboð á íbúðum sjaldan verið minna. Fjármálaráðherra segir þetta áhyggjuefni, ekki síst með tilliti til tekjulægri einstaklinga.

Verðbólga mælist nú 5,7 prósent og hefur ekki verið meiri í áratug. Húsnæðisliðurinn vegur einna þyngst en á sama tíma og greiðslubyrði lána hefur hækkað um allt að 14 prósent hefur meðalíbúðaverð hækkað á höfuðborgarsvæðinu hækkað verulega. 

Til að taka þetta saman þá hefur meðalkaupverð í borginni farið úr því að vera 63,2 milljónir í október, í 68,2 milljónir í desember - sem þýðir fimm milljón króna hækkun á tveimur mánuðum, að því er kemur fram í tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofun. 44 prósent íbúða seldust yfir ásettu verði.

Á sama tíma hefur framboð sjaldan verið minna, en fyrstu vikuna í janúar voru 487 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu á meðan þær voru 2.200 talsins fyrir tveimur árum. Þá hafa ekki færri íbúðir verið í byggingu frá árinu 2017.

„Ég held að við þurfum að huga meira að framboðshliðinni á húsnæðismarkaði en eftirspurnarhliðinni. Margt af því sem hefur verið gert undanfarin ár hefur verið til þess fallið að auka aðgengi að húsnæði og mögulega átt þátt í því að húsnæðisverðið hefur verið að hækka. Nú þegar það er horft fram á við þá finnst okkur að það mætti vera meira í pípunum á framboðshliðinni og ég held að menn ættu að beina sjónum sínum að því,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Þá sé lítið hægt að bregðast við hinni alþjóðlegu verðbólgu sem sé að skila sér til Íslands, með tilheyrandi verðhækkunum.

„Það er ekkert enn sem komið er sem bendir til þess að séu mikil vandræði fram undan. Þetta eru hættumerki sem við verðum að fylgjast vel með og gaumgæfa mjög vandlega hvað er skynsamlegt að gera, hvað er hægt að gera sem skilar árangri og eins og alltaf þegar verðbólgan á í hlut þá er það svona tekjulægra fólk sem fyrst mun finna fyrir áhrifunum og það er áhyggjuefni,“ segir Bjarni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×