Innlent

Segja ó­­lík­­legt að fugla­f­lensa hafi valdið fjölda­­dauða svart­­fugla hér á landi

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Að sögn MAST er ekki hægt að útiloka að skæðar fuglaflensuveirur séu til staðar í villtum íslenskum fuglum yfir veturinn.
Að sögn MAST er ekki hægt að útiloka að skæðar fuglaflensuveirur séu til staðar í villtum íslenskum fuglum yfir veturinn. U.S. Fish & Wildlife Service/Art Sowls

Matvælastofnun mun koma til með að senda sýni til rannsóknar úr fjölda svartfugla sem fundust dauðir á Suðausturlandi en þar verður meðal annars kannað hvort um fuglaflensa hafi valdið dauða fuglanna. Mikið er um fuglaflensu í Evrópu um þessar mundir, bæði í villtum fyglum og alifuglum.

Að því er kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun er þó ólíklegt að fuglaflensusmit valdi fjöldadauða í villtum fuglum en það verður engu að síður rannsakað á Tilraunarstöð Háskóla Íslands að Keldum.

Fuglaflensusmitin sem nú eru að greinast í Evrópu eru flest af skæðu afbrigði fuglaflensuveiru H5N1, sem er mjög sjúkdómsvaldandi fyrir fugla en hefur ekki enn valdið sýkingum í fólki.

MAST segir að þrátt fyrir að farfuglatímabilið sé ekki hafið sé ekki hægt að útiloka að skæðar fuglaflensuveirur séu til staðar í villtum íslenskum fuglum yfir veturinn.

„Það er mikilvægt að vera á verði fyrir óeðlilegum dauða í villtum fuglum, því ef smit finnst í þeim þarf að gera sérstakar ráðstafanir til að fyrirbyggja eins og kostur er að smit berist í alifugla,“ segir í tilkynningu MAST.

Matvælastofnun fékk tilkynningu frá Náttúrufræðistofnun Íslands í gær um fuglana en starfsfólk Náttúrustofu Austurlands hefur gengið fjörur og safnað hræjum til rannsóknar. Síðasti stóri svartfugladauðinn á Íslandi var veturinn 2001 til 2002 en niðurstaða rannsóknar þá var að hungur hafi drepið fuglana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×