Viðskipti innlent

Jens úr fluginu og í land­eldið

Atli Ísleifsson skrifar
Jens Þórðarson.
Jens Þórðarson. Geo Salmo

Jens Þórðarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Geo Salmo, sem áformar uppbyggingu landeldis á laxi á Íslandi.

Jens hefur víðtæka stjórnunar- og rekstrarreynslu, fyrst og fremst eftir að hafa starfað í ýmsum stjórnunarstörfum undanfarin fimmtán ár hjá Icelandair Group, en hann var síðast framkvæmdastjóri rekstrar (COO) félagsins. 

„Jens er með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og er búsettur í Reykjavík ásamt Ernu Kristínu Blöndal, eiginkonu sinni og þremur börnum.

Geo Salmo stefnir að uppbyggingu fiskeldisstöðvar við Þorlákshöfn á næstu árum þar sem áformað er að ala lax í fulla stærð á landi. Lögð verður áhersla á að framleiða hágæða lax við bestu mögulegu aðstæður og með lágmarks áhrifum á umhverfið. Fyrirtækið leggur áherslu á að nýta allt sem fellur til við fiskeldið til hins ýtrasta, t.d. með nýtingu affallsvatns í ræktun grænmetis og nýtingu ónothæfra hliðarafurða fisks í orkuframleiðslu en einnig með þróun á nýjum vörum sem geta skapað aukin verðmæti. Þannig setur fyrirtækið sér það markmið að langtímaáhrif þess á umhverfið séu hverfandi.

Jens hefur þegar hafið störf hjá félaginu en þar störfuðu fyrir þrír aðrir starfsmenn. Félagið er fullfjármagnað og hefur þegar hafið skipulags- og leyfisferli með hlutaðeigandi stofnunum ásamt hönnun fiskeldisstöðvarinnar,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Jens hættir hjá Icelandair

Jens Þórðarson, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra rekstrarsviðs hjá Icelandair Group, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×