Viðskipti innlent

Iða úr Arnarlax í Lax-Inn

Samúel Karl Ólason skrifar
Iða Marsibil Jónsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Lax-Inn fræðslumiðstöð fiskeldis.
Iða Marsibil Jónsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Lax-Inn fræðslumiðstöð fiskeldis.

Iða Marsibil Jónsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Lax-inn fræðslumiðstöðvar fiskeldis í Reykjavík. Iða var áður ein af lykilmönnum Arnarlax, samkvæmt tilkynningu.

Iða er viðskiptafræðingur og stundar MBA nám við Háskólann í Reykjavík. Hún er Bílddælingur og fædd og uppalin fyrir vestan. Þá er hún þriggja bara móðir og í áðurnefndri tilkynningu segir að hún hafi brennandi áhuga á og reynsu í fiskeldi.

Hún starfaði áður hjá Arnarlax og tók þátt í uppbyggingu félagsins en þar starfaði hún við mannauðsmál, fjármál og var skrifstofustjóri.

„Við erum heppin að fá Iðu til liðs við okkur og erum þakklát fyrir viðtökur bæði almennings sem og samstarfsaðila Lax-Inn sem gefur okkur tækifæri til frekari vaxtar. Iða hefur mikla reynslu af fiskeldi og stýringu rekstrar þar sem kraftar hennar munu nýtast vel til frekari uppbyggingar fræðslumiðstöðvarinnar.“ segir Sigurður Pétursson stofnandi Lax-Inn.

Fræðslumiðstöðin á Grandagarði var opnuð í byrjun september. 

Í tilkynningu frá Lax-Inn segir að tilgangur fræðslumiðstöðvarinnar sé að opna glugga að starfsemi fiskeldis hér á landi. Að uppfræða og vekja áhuga almennings á sjálfbærri matvælaframleiðslu atvinnugreinarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×