Fótbolti

Messi bað um það í ræðunni sinni að Lewandowski fengi líka Gullknött

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi flytur hér ræðuna sína á verðlaunahátíð France Football í gær.
Lionel Messi flytur hér ræðuna sína á verðlaunahátíð France Football í gær. Getty/Aurelien Meunier/

Lionel Messi fékk í gær Gullknöttinn í sjöunda sinn á ferlinum og bætti þar með sitt eigið met. Hann hefur nú fengið tvo fleiri Gullhnetti en Cristiano Ronaldo.

Messi hafði betur í kosningunni í ár eftir hörku baráttu við Pólverjann Robert Lewandowski. Messi hlaut á endanum 613 stig á móti 580 stigum frá Lewandowski.

Ræða Messi vakti nokkra athygli ekki síst þegar hann setti fram ósk fyrir Robert Lewandowski.

Gullknötturinn var ekki afhentur í fyrra vegna kórónuveirunnar en það var mikil synd fyrir framherja Bayern München sem átti rosalegt ár, bæði hvað varðar titla en einnig varðandi markaskor.

Messi vissi það eins og aðrir að Lewandowski átti að vera kominn með Gullknöttinn upp á hillu heima hjá sér.

„Ég vil minnast á Robert [Lewandowski] og segja að það er mikill heiður af því að keppa við hann. Mér finnst að France Football eigi að gefa þér Gullknöttinn fyrir árið 2020 því þú áttir hann skilið. Það voru allir sammála um það á síðasta ári að þú vannst þá þessi stóru verðlaun,“ sagði Lionel Messi.

Árið 2020 þá vann Robert Lewandowski fimm titla með Bayern München á árinu auk þess að skora 47 mörk í 44 leikjum. Hann gerði í raun enn betur í ár því hann er kominn með 64 mörk í 54 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×