Íslenski boltinn

Ætlar að taka annað fótboltasumar á „besta staðnum á Ís­landi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keelan Terrell í búningi FHL en hún kunni afar vel við sig fyrir austan.
Keelan Terrell í búningi FHL en hún kunni afar vel við sig fyrir austan. @fhl.fotbolti

Nýliðar FHL, sameiginlegt lið Fjarðabyggðar, Leiknis og Hattar, voru að fá góðar fréttir af leikmannamálum félagsins.

Félagið heldur nefnilega markverðinum sem hjálpaði félaginu að vinna sér sæti í Bestu deild kvenna í fyrsta sinn.

Írski markvörðurinn Keelan Terrell hefur samið við FHL út tímabilið 2025. Hún spilaði alla átján leiki liðsins í Lengjudeildinni á síðustu leiktíð.

„Keelan er einstakur karakter og frábær liðsfélagi sem stóð sig vel síðasta sumar,“ segir í frétt á miðlum FHL.

Þar er líka stutt viðtal við hana sjálfa.

„Ég er mjög spennt fyrir því að koma til baka og taka annað tímabil með FHL. Það var stórkostleg lífsreynsla að búa fyrir austan,“ sagði Terrell.

„Þetta er ekki aðeins besti staðurinn á Íslandi heldur einnig býr þar svo frábært fólk. Samfélagið er svo sterkt þarna og ekki síst í kringum fótboltann,“ sagði Terrell.

„Ég held að þetta fyrsta tímabil okkar í Bestu deildinni snúist mikið um vaxtarverki og lærdóm en við erum samt tilbúnar fyrir þessa miklu áskorun,“ sagði Terrell.

FHL missti tvo markahæstu leikmenn sína, leikmenn sem skoruðu 39 af 62 mörkum liðsins.

Samantha Smith (15 mörk í 14 leikjum) fór til Breiðabliks undir lok tímabilsins og samdi aftur við Blika á dögunum.

Markadrottning deildarinnar, Emma Hawkins (24 mörk í 14 leikjum) skipti til portúgalska félagsins SF Damaiense á svipuðum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×