Handbolti

Óbólusettir leikmenn fá ekki að taka þátt á HM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hollendingar eru ríkjandi heimsmeistarar í handbolta.
Hollendingar eru ríkjandi heimsmeistarar í handbolta. Twitter

Rúmlega tvær vikur eru í að heimsmeistaramót kvenna í handbolta fari af stað á Spáni. Löndin sem hafa unnið sér inn þátttökurétt hafa því örskamma stund til að bregðast við nýjustu reglugerð mótsins: Það er að allir sem koma að liðunum þurfi að vera bólusettir.

Á vef TV2 í Danmörku kemur fram að Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, hafi ákveðið að gera bólusetningu gegn Covid-19 sem skilyrði fyrir þátttöku á mótinu í ár. Aðeins 18 dagar eru þangað til mótið hefst og því þurfa forráðamenn sambanda þeirra landa sem hafa tryggt sér þátttöku að hafa hraðar hendur.

Þetta á við um leikmenn, þjálfara, sjúkraþjálfara, lækna, stjórnarfólk og dómara. Allir sem koma að mótinu þurfa að framvísa bólusetningarvottorði.

Á vef TV2 er rætt við Per Bertelsen, sem situr í mótanefnd IHF, og Uwe Schneker, forseta þýsku deildarkeppnanna. Þeir eru hvorugir ósáttir við fyrirkomulagið en setja vissulega spurningamerki við tímasetninguna.

Átján dagar eru ekki langur tími og mjög mismunandi eftir löndum hversu hratt er hægt að bólusetja fólk.

Alls taka 32 lönd þátt á HM að þessu sinni og koma þau frá fimm heimsálfum: Evrópu, Afríku, Suður-Ameríku, Asíu og Norður-Ameríku. Nú er bara að bíða og sjá hvort öll lið geti staðist skilyrði IFH varðandi bólusetningu.

Mótið hefst þann 1. desember og lýkur þann 19. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×