Fótbolti

Bræðurnir skoruðu í öruggum sigri Íslands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst Eðvald (nr. 22) og Kristian Nökkvi (nr. 10) Hlynssynir skoruðu báðir í sigri Íslands á Liechtenstein í dag.
Ágúst Eðvald (nr. 22) og Kristian Nökkvi (nr. 10) Hlynssynir skoruðu báðir í sigri Íslands á Liechtenstein í dag. vísir/Bára

Ísland vann öruggan sigur á Liechtenstein, 0-3, í undankeppni EM U-21 árs landsliða í dag. Bræðurnir Ágúst Eðvald og Kristian Nökkvi Hlynssynir voru báðir á skotskónum.

Með sigrinum komst Ísland upp að hlið Kýpurs í 3. sæti D-riðils undankeppninnar. Bæði lið eru með sjö stig.

Öll mörkin í leiknum í Eschen í dag komu á sextán mínútna kafla í fyrri hálfleik. Ágúst Eðvald kom Íslandi yfir á 15. mínútu eftir sendingu frá Hákoni Arnari Haraldssyni. Tíu mínútum síðar lagði Ágúst Eðvald upp mark fyrir yngri bróður sinn, Kristian Nökkva.

Á 31. mínútu skoraði fyrirliðinn Brynjólfur Andersen Willumsson svo þriðja mark íslenska liðsins með frábæru skoti.

Íslendingar létu þessi þrjú mörk duga þrátt fyrir að hafa verið í sókn nánast allan leikinn. Alls átti Ísland fjórtán skot í leiknum en Liechtenstein aðeins tvö.

Byrjunarlið Íslands má sjá hér fyrir neðan. Kristall Máni Ingason, Sævar Atli Magnússon, Viktor Örlygur Andrason, Bjarki Steinn Bjarkason og Orri Steinn Óskarsson komu inn á í seinni hálfleik. Sá síðastnefndi, sem er aðeins sautján ára, lék sinn fyrsta leik með U-21 árs landsliðinu í dag.

Á þriðjudaginn mætir Ísland Grikklandi í síðasta leik sínum á þessu ári. Grikkir eru í 2. sæti riðilsins með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×