Atvinnulíf

Hvers vegna velja konur á miðjum aldri að hætta sem stjórnendur en ekki karlar?

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Íris Hrönn Guðjónsdóttir, Innviðastjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, segir að samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem hún gerði þurfi atvinnulífið að gera breytingar svo það sé ekki að missa hæfar leiðtogakonur of snemma. Til dæmis sýna niðurstöður að konur sem velja að hætta í leiðtogastörfum, hafa komist að þeirri niðurstöðu að starfið samræmist ekki þeirra gildum.
Íris Hrönn Guðjónsdóttir, Innviðastjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, segir að samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem hún gerði þurfi atvinnulífið að gera breytingar svo það sé ekki að missa hæfar leiðtogakonur of snemma. Til dæmis sýna niðurstöður að konur sem velja að hætta í leiðtogastörfum, hafa komist að þeirri niðurstöðu að starfið samræmist ekki þeirra gildum. Vísir/Vilhelm

Ný íslensk rannsókn gefur til kynna að konur um miðjan aldur velji að hætta í æðstu leiðtogastörfum eftir að hafa farið í ítarlega sjálfsskoðun. Atvinnulífið þarf að huga að fjölbreyttari leiðum til að missa ekki þessar konur frá sér.

Íris Hrönn Guðjónsdóttir, Innviðastjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, kynnti á dögunum niðurstöður rannsóknar meistararitgerðar sinnar í stjórnun og stefnumótun. Yfirskrift ritgerðarinnar er „Hvers vegna velja konur í forystu að fara úr æðstu stjórnunarstöðum á miðjum aldri?“

Heimsþing kvenleiðtoga er haldið í fjórða sinn í þessari viku. Af því tilefni fjallar Atvinnulífið um málefni tengt konum í atvinnulífinu. Í gær var fjallað um þátttöku Ungra athafnakvenna í Global Goals World Cup en í dag er sagt frá niðurstöðum nýrrar rannsóknar um leiðtogakonur á miðjum aldri.

Hefur fjárhagsleg og ímyndarleg áhrif að hætta

Rannsóknin var unnin síðastliðið vor en viðmælendur Írisar voru allt konur sem áður höfðu starfað sem framkvæmdastjórar eða gegnt sambærilegri stöðu.

„Ég lagði upp með að tala við fámennan og þröngan hóp íslenskra kvenna sem höfðu um eða eftir miðjan aldur gert, að eigin frumkvæði, mikla breytingu á sínum starfsferli. Þetta voru allt konur sem höfðu gegnt framkvæmdastjórastöð eða sambærilegu,“ segir Íris.

Þær niðurstöður sem hér eru kynntar eru dregnar af þeim hópi kvenna sem hafa gert miklar breytingar á sínum starfsferli og teljast til forystukvenna í atvinnulífinu.

Í stuttu máli má draga megin niðurstöður saman í eftirfarandi:

Að hafa gert umfangsmiklar breytingar á starfsferli hafði oftast haft fjárhagslegar og ímyndarlegar afleiðingar í för með sér.

Viðmælendur höfðu allar farið í einhvers konar sjálfsskoðun knúna af innri hvöt. Þessi skoðun tengdist gjarnan ytri þáttum eins og ónotum sem þær höfðu upplifað í starfsumhverfi eða innri þáttum eins og heilsuleysi eða miklu vinnuálagi.

Atvinnulífið þarf að taka mið af þessu og huga að fjölbreyttari leiðum til að koma til móts við þarfir kvenleiðtoga til að sinna persónulegum þroska og endurmati til að missa þær síður frá sér.

„Það er auðvitað blóðugt að atvinnulífið missi kraftmiklar og reyndar konur úr forystuhlutverki þegar hlutfall þeirra er minna heldur en karla,“ segir Íris.

Bankahrun, gildi og fleiri áhrifaþættir

Íris segist ekki hafa átt auðvelt með að tengja skýringar kvennanna við tiltekna lífsviðburði.

„Konurnar sem ég talaði við voru á aldrinum 46 til 70 ára og aðstæður í þeirra einkalífi afar mismunandi. Sumar eignuðust börn snemma og aðrar seint. Sumar voru ungar þegar starfsframinn náði hæstu hæðum og aðrar eldri. Ég náði því ekki að tengja breytinguna sem þær gerðu við tímamót eins og stórafmæli eða breytingaskeiði sem við almennt tengjum aldri,“ segir Íris.

Þá bendir Íris á að í dag sé staðan ólík því sem áður var almennt. Til dæmis þýði aukið langlífi að fólk er lengur ungt miðað við áður, fólk er mis lengi að mennta sig, er á öllum aldri í dag að eignast börn og fleira. „Sem þýðir að fólk á ekki endilega mesta samleið með sínum aldurshópi heldur frekar hópi sem það á samleið með óháð aldri,“ segir Íris.

Ýmislegt annað virtist þó hafa haft áhrif.

Konurnar sem virkilega gerðu mikla breytingu á sínum starfsferli höfðu farið í miklar sjálfspælingar og jafnvel með skipulögðum hætti. 

Þær höfðu með öðrum orðum meðvitað farið í ítarlegt sjálfsmat, komist að niðurstöðu um að ferillinn ætti ekki samleið með gildum þeirra og markmiðum og tekið ákvörðun um breytingu,“ 

segir Íris.

Bankahrunið og vinnuálag hafði áhrif.

„Það kom býsna skýrt fram að aðdragandi og eftirmálar efnahagshrunsins 2008 og almennt mikið vinnuálag var áhrifavaldur í líf þessara kvenna.“

Fjármálageirinn skar sig nokkuð úr.

„Mér finnst líka athyglisvert að konurnar sem höfðu bein tengsl við fjármálalífið voru óvægnari í garð karlaforystunnar, ef til vill vegna þess að konur í þeim geira virðist enn sem komið er eiga erfiðast uppdráttar í atvinnulífinu.“

En var eitthvað sem kom þér á óvart í niðurstöðunum?

„Það sem kom kannski mest á óvart, og tengist niðurstöðunum ekki beint, er að í þessari vegferð varð mikilvægi fjölbreyttrar forystu mér enn skýrara en áður. Þess vegna legg ég áherslu á mikilvægi fjölbreyttrar forystu, sem rímar vel við dagskrá nýafstaðinnar Jafnvægisvogar FKA,“ segir Íris.

En hvar eru karlarnir sem velja að hætta í leiðtogastörfum?

Íris segir að í þessari rannsókn hafi aðeins verið rætt við konur.

Hins vegar telur hún æskilegt næsta skref vera að gera sams konar rannsókn til að skoða stöðu karla.

Að finna karlmenn á miðjum aldri sem hafa valið að hætta í leiðtogastarfi og gert miklar breytingar á starfsferli sínum virðist þó hægari sagt en gert, en Íris bað konurnar sem hún ræddi við að benda á karlmann.

„Skemmst er frá því að segja að ég fékk ekkert konkret nafn. Ég fékk allskonar humm og haaa en ekki nafn sem er vísbending um að karlar séu ólíklegri til að stíga þetta skref,“ segir Íris.

Ýmsar vangaveltur hafa þó komið fram um það, hvers vegna svo virðist vera að auðveldara er að finna konur á miðjum aldri sem gert hafa miklar breytingar á sínum starfsframa miðað við karlmenn.

Til dæmis velti leiðbeinandi Írisar, dr. Árelía Eydís Guðmundsdóttir upp þeim möguleika hvort karlmönum hreinlega leyfðist síður að gera slíkar breytingar.

Þá velti nemendahópur í meistarastigi í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands því fyrir sér hvort karlmönnum fyndist erfiðara að missa völd en konur. 

Því það að hætta í leiðtogastarfi á miðjum aldri gæti virst eins og ákveðin uppgjöf.

Nemendahópurinn velti því til dæmis fyrir sér hvort ímyndin og mannorðið væri karlmönnum mikilvægara heldur en konum og að það væri ósýnileg pressa á karla sem í feldist meðal annars hugmyndin um að þeir ættu að vera fyrirvinna,“ 

segir Íris en tiltekinn hópur eru nemendur sem hún er sjálf að kenna kúrs um forystu- og leiðtogahlutverkið.

Íris er þó ekki af baki dottin og auglýsir hér með eftir karlmönnum í sambærilega rannsókn.

Þá hvetur hún fólk til að senda sér ábendingar um karlmenn sem um miðjan aldur hafa valið að hætta í leiðtogastörfum og gert miklar breytingar á starfsferli sínum.

Ábyrgar fjárfestingar gætu haldið konum lengur

Írisi er ekki kunnugt um að sambærileg rannsókn hafi verið gerð erlendis og telur jafnvel að einfaldara sé að gera rannsóknir sem þessar á Íslandi í samanburði við margar þjóðir.

„Ég tel að á Íslandi séu einstakar aðstæður til að gera rannsókn af þessu tagi til dæmis vegna þess að Íslendingar búa við minna kynjabil en aðrar þjóðir, stemningin í samfélaginu snýst á sveif með kynjajafnrétti og að til þess að gera auðvelt er að nálgast viðmælendur,“ segir Íris.

Hins vegar hafa ýmsar rannsóknir verið gerðar erlendis og segist Íris bjartsýn á að mögulega muni hlutdeild kvenna aukast í leiðtogastörfum.

„Því nýleg erlend rannsókn sýnir að hlutfall kvenna fer vaxandi í áhrifastöðum í fjármálageiranum vegna stóraukins áhuga fjárfesta á ábyrgum fjárfestingum og viðskiptalífsins á hugmyndafræði UFS sem ábyrgar fjárfestingar byggja á,“ segir Íris.

Nú er þó svo komið að karlmenn eru farnir að horfa æ meira til ábyrgra fjárfestinga.

„Hlutfall kvenna er enn sem komið er hærra í ábyrgum fjárfestingum heldur en almennt í viðskiptalífinu. Það gæti þó breyst því karlar eru að sækja á þessi mið af miklum krafti og við vitum ekki hvernig staðan er á Íslandi,“ segir Íris.

Þá fannst Írisi áhugavert að heyra á mörgum viðmælendum að þær höfðu lengi látið sig samfélagslega ábyrgð varða, þótt almennt hefðu fyrirtækin ekkert endilega gert það.

„Mörgum kvennanna sem ég ræddi við var líka tíðrætt um fjölbreytileika og áhrifafjárfestingar og dæmi voru um viðmælendur sem um langt skeið höfðu látið sig varða sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð. Það er hins vegar svo stutt síðan fyrirtæki fóru að sýna viðfangsefninu áhuga en þó er utanaðkomandi krafan orðin svo mikil að hafi þau ekki puttann á púlsinum tapa þau einfaldlega samkeppnishæfi sínu,“ segir Íris og bætir við: „Hvort þetta muni skila sér í aukna hlutdeild kvenna í leiðtogastörfum og/eða að þær verði lengur, á hins vegar eftir að koma í ljós.“


Tengdar fréttir

Heimsþing kvenleiðtoga hefst á morgun í Hörpu

Á morgun, þriðjudag, hefst heimsþing kvenleiðtoga, Reykjavík Global Forum – Women Leaders (WPL) í fjórða sinn en þar munu um 600 kvenleiðtogar úr stjórnmálum, viðskiptum, fjölmiðlum og vísindum taka þátt, þar af 200 í Hörpu en 400 með rafrænum hætti.

Stjórnarkonur ósáttar: Karlaklíkur útiloka konur í forstjórastólinn

Stjórnarkonur í skráðum félögum á Íslandi telja ráðningaferli í forstjórastól oft útilokandi fyrir konur. Þær kalla stjórnir í heild sinni til ábyrgðar. Þá telja margar ráðningaferlin oft meingölluð. Það eigi einnig við um ráðningar þar sem leitað er til fagaðila. Þetta og fleira kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem birtar eru í dag og meira en helmingur stjórnarkvenna í skráðum félögum á Íslandi tók þátt í.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×