Fótbolti

Messi of mikið meiddur fyrir PSG en ekki of meiddur fyrir argentínska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landslið liðsfélaganna Lionel Messi og Neymar mætast í þessum landsleikjaglugga.
Landslið liðsfélaganna Lionel Messi og Neymar mætast í þessum landsleikjaglugga. AP/Michel Euler

Lionel Messi sagður hafa sett argentínska landsliðið í fyrsta sætið í samningnum við PSG og nýtti sér það þegar hann flaug heim í nótt.

Messi er meiddur og hefur ekki verið með í síðustu leikjum Paris Saint-Germain. Hann flaug samt til móts við argentínska landsliðið í nótt en fram undan eru mjög stórir leikir hjá Argentínu í undankeppni HM 2022.

Leonardo, íþróttastjóri Paris Saint-Germain, var mjög ósáttur með að Messi hafi flogið til Argentínu í nótt og lét óánægju sína í ljós í viðtali við franska blaðið Le Parisien.

Leonardo vildi að Messi einbeitti sér frekar að því að ná sér góðum af meiðslum sínum en á endanum var það klásúla í samningi Messi sem réði þar sem Messi fékk að setja argentínska landsliðið í fyrsta sæti.

Messi ætlar sér að enda landsliðsferill sinn á HM í Katar og fram undan eru leikir við Úrúgvæ og Brasilíu í undankeppninni.

„Við erum ekki sammála því að þurfa að láta leikmann okkar fara, ef þeir eru ekki í líkamlegu ástandi til að spila eða eru á fullu í endurhæfingu. Það er ekkert lógískt við það og svona aðstæður kalla á alvöru samkomulag við FIFA,“ sagði Leonardo við Le Parisien.

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri PSG, ræddi líka stöðuna á Messi fyrir leikinn sem sá argentínski missti af um helgina.

„Hann getur ekki spilað með okkur á morgun. Við skulum sjá til hvort hann geti ferðast til Argentínu til að spila fyrir þjóð sína. Við vonum að hann geti farið, spilað fyrir landsliðið og komið heill til baka,“ sagði Mauricio Pochettino.

Meiðsli Messi bætast við þá staðreynd að hann hefur enn ekki skorað fyrir PSG í frönsku deildinni. Það er því einhver pirringur í gangi í Parísarborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×