Fótbolti

Lyon tryggði sér sigur í A-riðli | Napoli sigraði toppslaginn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lyon tryggði sér í kvöld sigur í A-riðli Evrópudeildarinnar.
Lyon tryggði sér í kvöld sigur í A-riðli Evrópudeildarinnar. Marcio Machado/Eurasia Sport Images/Getty Images

Af þeim 16 leikjum sem fara fram í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í kvöld er nú átta þeirra lokið. Lyon tryggði sér sigur í A-riðli með 3-0 sigri gegn Sparta Prague og Napoli vann 4-1 útisigur gegn Legia Varsjá í toppslag C-riðils svo eitthvað sé nefnt.

Það tók Lyon rétt rúman klukkutíma að brjóta ísinn er liðið tók á móti Sparta Prague. Á 61. mínútu kom Islam Slimani heimamönnum í 1-0, og tveimur mínútum síðar var hann búinn að tvöfalda forystuna.

Það var svo varamaðurinn Karl Toko Ekambi sem tryggði heimamönnum öruggan 3-0 sigur með marki í uppbótartíma. Lyon er nú með 12 stig í efsta sæti A-riðils, átta stigum meira en næstu lið þegar tvær umferðir eru eftir, og eru því öruggir með sigur í riðlinum.

Mahir Emreli kom heimamönnum í Legia Varsjá í forystu strax á tíundu mínútu er liðið tók á móti Napoli í C-riðli, og staðan var 1-0 í hálfleik.

Piotr Zielinski jafnaði metin fyrir gestina af vítapunktinum á 51. mínútu, áður en Dries Mertens kom Napoli í 2-1 á 75. mínútu. Hirving Lozano breytti stöðunni í 3-1 fjórum mínútum síðar, og Adam Ounas gulltryggði 4-1 sigur gestanna á lokamínútu leiksins.

Napoli lyftir sér í efsta sæti riðilsins með sigrinum. Liði hefur nú sjö stig, einu stigi meira en Legia frá Varsjá.



Úrslit kvöldsins

A-riðill

Bröndby 1-1 Rangers

Lyon 3-0 Sparta Prague

B-riðill

Monaco 0-0 PSV Eindhoven

Real Sociedad 1-1 Sturm Graz

C-riðill

Legia Varsjá 1-4 Napoli

D-riðill

Olympiacos 1-2 Eintracht Frankfurt

E-riðill

Galatasaray 1-1 Lokomotiv Moscow

H-riðill

Genk 2-2 West Ham




Fleiri fréttir

Sjá meira


×