Erlent

Kartaflan Doug kann að vera sú stærsta í heimi

Atli Ísleifsson skrifar
Eftir mælingu reyndist kartaflan vega 7,9 kíló.
Eftir mælingu reyndist kartaflan vega 7,9 kíló. AP

Hjón á Nýja-Sjálandi hafa grafið upp það sem kann að vera stærsta kartafla heims, en hún er tæp átta kíló að þyngd.

AP segir frá því að þau Donna og Colin Craig-Brown hafi nefnt kartöfluna Doug, en þau grófu hana upp í úthverfi Hamilton á Norðurey Nýja-Sjálands í lok ágúst síðastliðinn.

Donna Craig-Brown heldur á Doug.AP

Hjónin segjast ekki hafa ræktað kartöfluna sjálf heldur er talið að hún hafi sáð sér sjálf og síðan vaxið og dafnað óáreitt í einhver ár.

Eftir mælingu reyndist kartaflan vega 7,9 kíló og hafa hjónin sett sig í samband við Heimsmetabók Guinness til að fá hana skráða sem stærstu kartöflu í heimi.

Núverandi methafi er kartafla sem var grafin upp í Bretlandi árið 2011. Sú var fimm kíló að þyngd.

Hjónin segjast hafa gefið kartöflunni nafnið Doug þar sem þau grófu (e. dug) hana upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×