Viðskipti innlent

Ráðin til að styrkja fjár­stýringu fyrir­tækisins

Eiður Þór Árnason skrifar
Íris Ósk Ólafsdóttir, Marteinn Már Antonsson og Sædís Kristjánsdóttir.
Íris Ósk Ólafsdóttir, Marteinn Már Antonsson og Sædís Kristjánsdóttir. Aðsend

Samkaup hafa ráðið þrjú í störf lausnastjóra, áhættu- og lausafjárstjóra og launasérfræðings. Markmiðið með ráðningum er sagt vera að styrkja fjárstýringu hjá Samkaupum en verslanir fyrirtækisins veltu ríflega 40 milljörðum króna á síðasta ári.

Íris Ósk Ólafsdóttir hefur verið ráðin lausnastjóri í upplýsingatæknideild á fjármálasviði. Fram kemur í tilkynningu að um nýtt starf sé að ræða sem heyri undir upplýsingatæknistjóra. Íris mun starfa þvert á svið fyrirtækisins og hafa yfirumsjón með vörueigendum og styðja þá í að framfylgja stefnu félagsins.

Þá mun hún taka þátt í inn- og útleiðingum á kjarnalausnum og leiða sjálfvirkni- og nútímavæðingu ferla og vara, að sögn Samkaupa. Íris starfaði áður sem HR Solution Manager hjá Icelandair og er með BS.c. í Value Chain Management frá VIA University College í Danmörku. Hún stundar nú meistaranám í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst.

Marteinn Már Antonsson hefur verið ráðinn áhættu- og lausafjárstjóri sem er sömuleiðis ný staða hjá Samkaupum. Fram kemur í tilkynningu að hann muni bera ábyrgð á lausafjárstýringu félagsins ásamt útlána- og viðskiptamannaáhættu. Marteinn hefur starfað hjá Samkaupum í rúmt ár sem verkefnastjóri á fjármálasviði þar sem hann hefur haft yfirumsjón með greiningum. Hann er með B.Sc. í viðskiptafræði og stundar meistaranám í fjármálum við Háskólann í Reykjavík.

Sædís Kristjánsdóttir hefur verið ráðin launasérfræðingur en hún starfaði áður sem sérfræðingur í launadeild hjá Reykjanesbæ. Þar á undan starfaði hún hjá Landsbankanum sem sérfræðingur á rekstrarsviði við vörslu verðbréfa. Sædís er með B.Sc. í viðskiptafræði af markaðssviði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.

Samkaup reka 65 verslanir víðsvegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin, Iceland og Samkaup Strax. Alls starfa 1.500 manns hjá fyrirtækinu í fullu starfi eða hlutastarfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×