Fótbolti

Di Maria reyndist hetja PSG

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Angel Di Maria skoraði sigurmark PSG í kvöld.
Angel Di Maria skoraði sigurmark PSG í kvöld. John Berry/Getty Images

Franska stórveldið Paris Saint-Germain bjargaði sér fyrir horn er liðið vann 2-1 sigur gegn Lille í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Angel Di Maria tryggði sigur PSG með marki undir lokin.

Það voru gestirnir í Lille sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Jonathan David kom boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Burak Yilmaz á 31. mínútu.

Staðan var því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja, en athygli vakti að Mauricio Pochettino, þjálfari PSG, skipti Lionel Messi af velli í hálfleik.

Þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum jafnaði Marquinhos metin fyrir PSG með frábæru marki eftir fyrirgjöf frá Angel Di Maria.

Heimamenn í PSG sóttu stíft það sem eftir lifði leiks og það skilaði sér loks á 88. mínútu þegar áðurnefndur Di Maria batt endahnútinn á vel útfærða sókn og kom boltanum í netið eftir gott þríhyrningsspil við Neymar.

Ekki urðu mörkin fleiri og leikmenn PSG gátu því andað léttar. Liðið er enn með örugga forystu á toppi frönsku deildarinnar með 31 stig eftir 12 leiki, tíu stigum meira en næsta lið. Lille situr í 11. sæti með 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×