Fótbolti

Neymar segir að djammið bitni ekki á fótboltaferlinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar finnst gaman að tjútta.
Neymar finnst gaman að tjútta. getty/Julien Hekimian

Neymar segir að tíðar ferðir hans á djammið komi ekki niður á ferli hans sem fótboltamaður.

Brasilíumaðurinn er tíður gestur á börum og skemmtistöðum Parísar og virðist njóta ljúfa lífsins. En hann þvertekur fyrir að það bitni á frammistöðu hans inni á vellinum.

„Fólk segir að ég hugsi ekki vel um mig. Neymar er þetta, Neymar er hitt,“ sagði Brassinn í viðtali á YouTube-rásinni Fui Clear.

„Hvernig getur einhver sem hugsar ekki vel um sig verið á toppnum í tólf ár? Það er ekki hægt. Ég veit hvernig ég á að hugsa vel um mig. Ég er með sjúkra- og þrekþjálfara með mér nánast allan sólarhringinn.“

Neymar segist vera með reglu þegar kemur að djamminu. „Ég fer út að skemmta mér þegar ég get. En bara þegar það er ekki æfing daginn eftir. Hvert er vandamálið? Dæmið mig fyrir það sem ég geri inni á vellinum.“

Neymar og félagar hans í Paris Saint-Germain taka á móti meisturum Lille í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld. PSG er með sjö stiga forskot á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×