Innlent

Ríkis­sak­­sóknari skoðar hvort á­frýja eigi Rauða­­gerðis­­dóminum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari. Vísir/Vilhelm

Ríkissaksóknari fer nú yfir dóminn í Rauðagerðismálinu og önnur gögn, áður en tekin verður ákvörðun um hvort áfrýja eigi dóminum.

Angjelin Sterkaj var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir morðið á Armando Beqiri og fékk 16 ára fangelsisdóm. Þrjú voru ákærð fyrir hlutdeild að morðinu en voru sýknuð.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sem hefur ákvörðunarvald um áfrýjun í málinu af hálfu ákæruvaldsins, segir í samtali við fréttastofu að nú þurfi hún að fara yfir dóminn og gögn málsins, áður en tekin er ákvörðun um framhaldið.

Friðrik Smári Björgvinsson saksóknari sagði við fréttastofu að lokinni dómsuppkvaðningu að niðurstaðan í máli Angjelin hafi verið í takti við kröfur ákæruvaldsins, en að skoða verði sýknur þeirra Claudiu Sofiu Coelho Carvalho, Murats Selivrada og Shpetims Qerimi. Öll þrjú voru ákærð fyrir hlutdeild í morðinu á Armando.

Oddgeir Einarsson, verjandi Angjelins, sagði dóminn yfir umbjóðanda sínum vera í takt við væntingar, enda hafi hann játað á sig morðið. Eftir uppkvaðningu dómsins sagðist hann þurfa að lesa dóminn og ræða við Angjelin. Hann gat á þeim tímapunkti ekki sagt til um það hvort þess yrði freistað að fá refsinguna mildaða.

Ríkissaksóknari getur farið þá leið að áfrýja dómi í máli einstakra sakborninga eða allra. Sömuleiðis er ekki loku fyrir það skotið að Angjelin áfrýii dóminum yfir sér, óháð því hvað ákæruvaldið kýs að gera.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×