Innlent

Segja öryggis­mynda­vélar sýna fólk ganga inn og út úr salnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þessar myndir af óinnsigluðum atkvæðum í talningarsalnum birtust á Instagram.
Þessar myndir af óinnsigluðum atkvæðum í talningarsalnum birtust á Instagram. Instagram

Kjarninn hefur greint frá því að á öryggismyndavélum við tvo innganga í sal þar sem óinnsigluð kjörgögn voru geymd í Norðuvesturkjördæmi sjáist fólk ganga inn og út á þeim tíma sem yfirkjörstjórn var heima á milli talningar og endurtalningar.

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar kjördæmisins, sagðist á sínum tíma vera þess viss að enginn hefði farið inn í salinn á umræddum tíma; milli klukkan 7.30 og 11.46 sunnudagsmorguninn 26. september.

Kjarninn segist enn fremur hafa heimildir fyrir því að starfsfólk hótels Borgarness, þar sem talninga atkvæða fór fram, hafi tekið myndir í salnum á milli klukkan 8 og 9.

Vísir hefur fengið þetta staðfest hjá eigin heimildarmanni, sem segir lögreglu hafa ljósmyndir undir höndum sem voru teknar á milli klukkan 8 og 10 og sýna óinnsigluð kjörgögnin í salnum.

Lokatölur úr Norðvesturkjördæmi voru gefnar út um kl. 7 og í kjölfarið héldu yfirkjörstjórnarmenn heim. Eftir ábendingu frá landskjörstjórn ákvað yfirkjörstjórn upp á sitt eindæmi að endurtelja atkvæðin en sú endurtalning leiddi til hrókeringa á jöfnunarþingmönnum sem urðu til þess að fimm frambjóðendur sem töldu að þeir hefðu verið kjörnir á þing duttu út og fimm aðrir urðu þingmenn þeirra í stað.

Að minnsta tólf kærur hafa borist vegna þingkosninganna en undirbúningskjörbréfanefnd liggur nú yfir næstu skrefum í málinu.

Umfjöllun Kjarnans.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Undir­búnings­kjör­bréfa­nefnd á vett­vang talningar í Borgar­nesi

Undirbúningskjörbréfanefnd Alþingis fundar í dag á hótel Borgarnesi þar sem talning fór fram í Norðvesturkjördæmi í nýafstaðnum alþingiskosningum. Formaður nefndarinnar segir mikilvægt að nefndin vandi til verka þótt æskilegt væri að uppkosning færi fram sem fyrst ef niðurstaðan yrði að endurtaka þyrfti kosningarnar í kjördæminu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×