Innlent

Ó­trú­leg fjölgun hnúð­laxa er hulin ráð­gáta

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Jaakko Erkinaro var staddur á málþingi um Norðuratlantshafslaxinn í síðasta mánuði.
Jaakko Erkinaro var staddur á málþingi um Norðuratlantshafslaxinn í síðasta mánuði. vísir/óttar

Finnskur rann­sóknar­prófessor segir enga leið að spá fyrir um af­leiðingar hinnar gríðar­legu aukningar í stofni hnúð­laxa í Norður At­lants­hafinu. Hún gæti orðið dra­stísk ef vöxtur stofnsins heldur á­fram á sömu braut og hann hefur verið á en hann virðist hafa tí­faldast milli ára.

Rússar fluttu fyrst hnúðlax frá Kyrrahafi og byrjuðu með sleppingar á honum við Hvítahaf og Kólaskaga fyrir 1960.

„Það gerðist svo fyrir­vara­laust árið 2017 að þeir voru komnir út um allt Norður At­lants­haf. Síðan í ár var al­gjör sprenging í stofninum og við erum að sjá sturlaðar tölur,“ segir Jaakko Erkinaro, rann­sóknar­prófessor hjá Luke, náttúru­lífs­rann­sóknar­stofnunar Finn­lands, í sam­tali við Vísi.

Jaakko var staddur hér á landi í lok síðasta mánaðar sem gestur mál­þings á vegum verk­efnis auð­kýfingsins Jim Ratclif­fe, Verndar­svæði laxa á Norð­austur­landi. Hann settist niður með okkur eftir mál­þingið til að ræða hnúð­laxinn, sem er vísinda­mönnum um allt Norður At­lants­hafs­svæðið nokkur ráð­gáta.

Hnúðlax sem veiddist í Sandá í ár.aðsend

Kannski hlýnun sjávar að kenna

„Við vitum í raun ekkert hvað gerðist en það eru nokkrar til­gátur um þetta. Sú aug­ljósasta er auð­vitað hlýnun jarðar. Kannski hafa skil­yrðin í hafinu rétt svo farið yfir ein­hvern þröskuld sem bætir lífs­líkur hrognanna. Þeim gekk kannski ekki vel að lifa af síðustu ára­tugi en eftir þessa ör­litlu hlýnun sjávar hafi þeim vegnað betur og séu nú bara búin að dreifa sér út um allt,“ segir Jaakko.

Aukningin hefur sést vel á Ís­landi en eins og Vísir greindi frá um miðjan síðasta mánuð er gert ráð fyrir að hér hafi fundist yfir þúsund hnúð­laxar saman­borið við 232 árið 2019 og 54 árið 2017. Hnúð­laxa­stofninn sem hefur náð sér á strik er þannig gerður að hann kemur í árnar á tveggja ára fresti.

Graf frá Hafrannsóknarstofnun. Hnúðlaxastofnar kemur í árnar á tveggja ára fresti en stofninn sem sækir hingað á oddatöluárunum er sá sem hefur náð sér á strik.hafró

Og staðan er eins í hinum löndunum í Norður At­lants­hafinu; Bret­landi, Þýska­landi, Frakk­landi, Dan­mörku, Sví­þjóð og sér­stak­lega nyrst við landa­mæri Noregs og Finn­lands þar sem Jaakko stundar rann­sóknir sínar.

„Þetta sem gerðist í ár er eitt­hvað sem við höfum aldrei séð áður. Þetta var tí­földun á mörgum stöðum, til dæmis í ánni sem við erum að rann­saka. Og nú er spurningin – hvað gerist árið 2023? Verður aftur tí­földun eða hefur þetta náð há­marki? Við höfum enga hug­mynd, þetta er allt glæ­nýtt fyrir okkur,“ segir hann.

Áhrif á lífríkið alveg óljós

Ein stærsta spurningin sem á eftir að svara er hvaða á­hrif hnúð­laxinn hefur á At­lants­hafs­laxinn og líf­ríki ánna í heild sinni.

„Þetta mun mjög lík­lega hafa ein­hver á­hrif. Þetta snýst í raun allt um jafn­vægið og stærðar­skalann sem við erum að tala um,“ segir Jaakko og á þá við að á­hrifin verði væntan­lega mest á litlar ár.

„Hugsaðu þér litla á þar sem eru kannski eitt til þrjú þúsund at­lants­hafs­laxar. Í­myndaðu þér svo að það komi 20 þúsund hnúð­laxar í þá á. Það er það sem er að gerast. Þeir eru að fara í sumar af þessum litlu ám í gríðar­legu magni,“ segir hann.

„Og þá er þetta ekki síst spurning um pláss í ánum. Við vitum ekki enn hvernig At­lants­hafs­laxinn tekur í hnúð­laxinn eða hvernig plássið er í hyljunum í þessum litlu ám. Hnúð­laxinn er til dæmis mjög agressíf tegund sem ræðst á allt þegar hann er að verja hrygningar­staði sína.“

Hann nefnir einnig annan vanda sem mun fylgja hnúð­laxinum: hann drepst í ánum þegar hann er búinn að hrygna en fer ekki aftur út í sjó eins og At­lants­hafs­laxinn. „Og hann rotnar í ánum. Við erum að sjá það víða að það eru fullir hylir og bakkar af dauðum hnúð­löxum og það má í raun segja að þetta geti verið mengun fyrir sumar ár því þetta breytir alveg efna­sam­setningunni í þeim. Við vitum ekkert hvaða á­hrif það hefur á allt líf­ríkið í og í kring um árnar.“


Tengdar fréttir

Hnúðlaxar veiðast sem aldrei fyrr

Sífellt fleiri fréttir eru að berast af hnúðlaxi í ánum á landinu og er svo komið að það þykir ekki lengur frétt að sjá eða veiða þessa laxa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×