Erlent

Bogmaðurinn talinn hafa hneigst að öfgahyggju

Kjartan Kjartansson skrifar
Tæknimaður lögreglu á vettvangi fjöldamorðsins í Kongsberg.
Tæknimaður lögreglu á vettvangi fjöldamorðsins í Kongsberg. Vísir/EPA

Norska lögreglan segir að danskur karlmaður sem myrti fimm manns og særði tvo til viðbótar með boga og örvum í bænum Kongsberg í Noregi í gærkvöldi hafi verið grunaður um að hneigjast að öfgahyggju. Fórnarlömbin voru fjórar konur og einn karlmaður á aldrinum fimmtíu til sjötíu ára.

Sá grunaði er 37 ára gamall karlmaður af dönskum uppruna sem tók íslamstrú. Ole B. Sæverud, lögreglustjóri í Kongsberg, segir að áhyggjur hafi komið fram um að hann aðhylltist öfgahyggju. Norska ríkisútvarpið NRK segir að yfirvöld hafi fengið nokkrar tilkynningar þess efnis. Engin þeirra var þó frá þessu ári.

Ann Irén Svane Mathiassen, lögfræðingur hjá lögreglunni, vildi ekkert gefa upp um hvað vakti fyrir árásarmanninum en hann hafi verið samvinnuþýður við lögreglu.

„Hann hefur tjáð sig um það sem gerðist og upplifun sína. Hann hefur viðurkennt staðreyndir málsins og að það hafi verið hann sem var að verki,“ sagði hún.

Ríkisstjórnarskipti verða í Noregi í dag. Jonas Gahr Støre, verðandi forsætisráðherra, lýsti árásinni sem „hryllilegri“.

Árásarmaðurinn skaut fórnarlömb sín með örvum, mörg þeirra í stórmarkaði. Til átaka kom á milli hans og lögreglu áður en hún náði að yfirbuga hann.

Talið er að maðurinn sé búsettur í Kongsberg. Lögregla telur að hann hafi verið einn að verki. Rannsókn beinist meðal annars að því hvort að hann hafi ætlað að fremja hryðjuverk. Sæverud lögreglustjóri segir að sér kæmi ekki á óvart ef árásarmaðurinn yrði látinn gangast undir geðrannsókn.

Mathiasen staðfesti að maðurinn hafi notað fleiri vopn við árásina en upplýsti ekki hvers kyns þau voru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×