Sport

Ein skærasta frjálsíþróttastjarna Kenía myrt af eiginmanni sínum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Agnes Tirop fagnar eftir að hafa komið þriðja í mark í 10.000 metra hlaupi á HM 2019.
Agnes Tirop fagnar eftir að hafa komið þriðja í mark í 10.000 metra hlaupi á HM 2019. getty/Alexander Hassenstein

Keníska frjálsíþróttastjarnan Agnes Tirop fannst látin á heimili sínu í gær. Í yfirlýsingu frá keníska frjálsíþróttasambandinu segir að eiginmaður hennar hafi stungið hana til bana.

Tirop vann til bronsverðlauna í 10.000 metra hlaupi á HM 2017 og 2019 og lenti í 4. sæti í 5000 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Þá vann hún gull í 5000 metra hlaupi á demantamótaröðinni í Svíþjóð fyrir tveimur árum.

Tirop var 25 ára þegar hún lést en hún hefði orðið 26 ára þarnæsta laugardag. Hún fannst látin á heimili sínu í Iten í Kenía með nokkur stungusár í kviðnum.

Í yfirlýsingunni frá frjálsíþróttasambandi Kenía segir að enn sé unnið að því afla frekari upplýsinga um andlát Tirops.

„Við erum í áfalli yfir fregnum af Agnes Tirop sé látin. Kenía hefur misst gimstein sem var á leiðinni að verða ein skærasta stjarnan í frjálsíþróttum, þökk sé eftirtektarverðri frammistöðu sinni á hlaupabrautinni,“ segir í yfirlýsingu keníska frjálsíþróttasambandsins.

Skömmu fyrir andlát sitt hafði Tirop náð mjög góðum árangri í Valencia hálfmaraþoninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×