Fótbolti

Messi: Því meira sem við Neymar og Mbappe spilum saman því betri verðum við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leo Messi birti þessa mynd af sér með þeim Neymar og Kylian Mbappe eftir leikinn í gærkvöldi.
Leo Messi birti þessa mynd af sér með þeim Neymar og Kylian Mbappe eftir leikinn í gærkvöldi. Instagram/@leomessi

Lionel Messi var kátur eftir markið og sigurinn á Manchester City í Meistaradeildinni í gærkvöldi og mótherjar Paris Saint Germain geta byrjað að hafa áhyggjur því argentínski snillingurinn segir að PSG liðið eigi bara eftir að verða betra.

Messi var búinn að bíða svolítið eftir fyrsta marki sínu með Paris Saint Germain en það kom í sigrinum á City og var af glæsilegri gerðinni.

Eftir að hafa ekki verið alltof sannfærandi í fyrstu þremur leikjunum með franska félaginu þá minnti hann okkur á snilli sína með laglegu marki eftir flotta samvinnu við Kylian Mbappe. Með markinu þá gerði hann nánast út um leikinn en það kom sextán mínútum fyrir leikslok.

„Ég er mjög ánægður með að hafa skorað,“ sagði Lionel Messi í viðtali við Canal Plus en hann hafði misst af síðustu tveimur leikjum vegna vandræða með hnéð sitt. Messi var búinn að spila í 264 mínútur með PSG þegar hann náð loks að skora fyrsta markið.

„Ég hef ekki spilað mikið að undanförnu en það er satt að ég var orðin svolítið óþolinmóður eftir fyrsta markinu. Ég hafði bara spilað einn leik áður á Parc des Princes. Ég er smá saman að aðlagast betur nýja liðinu mínu og nýju liðsfélögunum,“ sagði Messi.

„Því meira við framherjarnir [Neymar og Mbappe] spilum saman því betri verðum við. Við þurfum allir að vaxa saman og bæta okkar leik í heild. Við spiluðum vel. Við verðum að gera okkar besta og halda því áfram,“ sagði Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×