Erlent

Umsvifamesti miðlari grófs barnaníðsefnis dæmdur í 27 ára fangelsi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Marques yfirgefur dómhús á Írlandi eftir að bandarísk yfirvöld kröfðust framsals.
Marques yfirgefur dómhús á Írlandi eftir að bandarísk yfirvöld kröfðust framsals. Getty/Niall Carson

Eric Eoin Marques, 36 ára, hefur verið dæmdur í 27 ára fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að setja upp og reka vefþjóna sem hýstu 8,5 milljónir mynda og myndskeiða af barnaníð. Þarlend yfirvöld segja Marques umsvifamesta miðlara barnakláms sem sögur fara af.

Marques, sem er með tvöfalt ríkisfang, bæði á Írlandi og í Bandaríkjunum, var handtekinn á Írlandi árið 2013 og framseldur til Bandaríkjanna árið 2019. 

Hann rak vefþjóna á djúpvefnum þar sem notendur gátu nálgast afar gróft barnaníðsefni, meðal annars myndir og myndskeið af nauðgun og pyntingum ungbarna.

Yfirvöld sögðu mikið af efninu vera að koma fyrir augu þeirra í fyrsta sinn, sem þýðir að það hafði ekki verið flaggað og sett í gagnabanka sem notaðir eru til að bera kennsl á barnaníðsefni á netinu.

Þegar hann kvað upp dóminn líkti dómarinn Theodore Chuang Marques við fíkniefnabarón og sagði glæpi hans „viðurstyggilega“. Marques bað fórnarlömb ofbeldisins fyrirgefningar og biðlaði um annað tækifæri.

Saksóknarinn í málinu sagði Marques hafa skapað samfélag á netinu þar sem barnaníðingar gátu misþyrmt börnum og deilt hryllingnum með öðrum níðingum. „Þeir hópuðu sig saman og misnotuðu börn kynferðislega,“ sagði Ralph Paradiso. „Og þeir höfðu ánægju af misnotkuninni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×