Innlent

Ekki kunnugt um nýja reglu­gerð og veiddu á bann­svæði

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Skipið er í eigu Bergs-Hugins ehf., dótturfélags Síldarvinnslunnar.
Skipið er í eigu Bergs-Hugins ehf., dótturfélags Síldarvinnslunnar. Vísir/vilhelm

Skipi í eigu dótturfélags Síldarvinnslunnar var í gær gert að hætta veiðum og snúa til hafnar frá svæði þar sem bannað var að veiða með botnvörpu. Skipstjórinn segir að sér hafi ekki verið kunnugt um bannið.

Landhelgisgæslan hafði afskipti af skipinu í gær en í tilkynningu á Facebook-síðu Síldarvinnslunnar hf. segir að skipið hafi verið í eigu Bergs-Hugins ehf. dótturfélags Síldarvinnslunnar. Það heitir Vestmannaey VE54.

Skipið var við veiðar á Glettinganesgrunni í svokölluðum Skáp en í lok júní var sett á tímabundið bann við veiðum með botnvörpu á svæðinu.

Í tilkynningu Síldarvinnslunnar segir að skipsstjóranum hafi ekki verið kunnugt um reglugerðina. „Virðist hafa farist fyrir hjá þar til bærum yfirvöldum að birta reglugerð um tímabundið bann í samráðsgátt eins og vænta mátti,“ segir í tilkynningunni.

Skipinu var snúið aftur til hafnar í Neskaupsstað í gær þar sem verður landað úr því. Skýrslutöku vegna málsins er lokið og segir Síldarvinnslan að Vestmannaey verði haldið á ný til veiða síðar í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×