Fótbolti

Bæta við fjórum hólfum og selja 800 miða á leikinn við Þýskaland

Sindri Sverrisson skrifar
Tæplega 2.000 áhorfendur sáu Ísland tapa 2-0 gegn Rúmeníu og gera 2-2 jafntefli við Norður-Makedóníu.
Tæplega 2.000 áhorfendur sáu Ísland tapa 2-0 gegn Rúmeníu og gera 2-2 jafntefli við Norður-Makedóníu. vísir/vilhelm

Nú í hádeginu fara í sölu 800 miðar á leik Íslands gegn stórliði Þýskalands í undankeppni HM karla í fótbolta. Leikurinn er á Laugardalsvelli á miðvikudagskvöld.

Íslenska liðið hefur leikið gegn Rúmeníu og Norður-Makedóníu fyrir framan tæplega 2.000 manns í síðustu leikjum. Í boði voru 2.200 sæti sem skiptust á milli ellefu sóttvarnahólfa, í samræmi við lög um samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins.

Miðarnir 2.200 á leikinn við Þýskaland seldust fljótt en nú hefur verið ákveðið að bæta við fjórum hólfum í austurstúkunni á Laugardalsvelli.

Óskar Örn Guðbrandsson, starfsmaður samskiptadeildar KSÍ, segir að fyrir leikina þrjá hafi verið búið að teikna upp talsvert fleiri sóttvarnahólf á Laugardalsvelli en hafi verið nýtt í leikjunum við Rúmeníu og Norður-Makedóníu. Hins vegar hafi óvissa um hugsanlegar hópamyndanir í biðröðum við innganga, salerni og veitingasölu valdið því að ekki voru fleiri hólf en ellefu. 

Áhuginn á leikjunum reyndist svo ekki slíkur að það kæmi að sök.

Áhuginn á leiknum við Þýskaland er hins vegar meiri og í ljósi góðrar reynslu af því hvernig til tókst í gær og á fimmtudaginn gegn Rúmeníu ákvað KSÍ að fjölga áhorfendahólfum. Því verða miðar seldir í fjögur 200 manna hólf í dag og hugsanlegt er að fleiri miðum verði bætt við til sölu í vesturstúkunni ef áhugi reynist fyrir því.

Þjóðverjar mæta til Íslands með höfuðið hátt eftir 6-0 sigur gegn Armeníu í Stuttgart í gær. Þeir eru nú efstir í J-riðli með 12 stig en Ísland er í 5. sæti með 4 stig, nú þegar undankeppnin er hálfnuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×