Fótbolti

Margrét: Þetta var ekki það sem við ætluðum okkur

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Margrét, þjálfari Fylkis
Margrét, þjálfari Fylkis Vísir:Bára Dröfn

Fylkiskonur eru fallnar úr Pepsi Max deild kvenna eftir tap á móti Þór/KA í Árbænum í dag. Fylkiskonur hefðu þurft að vinna leikinn og stóla á úrslit í öðrum leikjum til að halda sér uppi. 

„Þetta er auðvitað mjög svekkjandi. Það eru allir frekar súrir með þessa niðurstöðu. Þetta var ekki það sem við ætluðum okkur,“ sagði Margrét Magnúsdóttir, ein af þjálfurum Fylkis, vonsvikin eftir leikinn. 

„Við hefðum þurft að sýna aðeins meiri yfirvegun. Vera rólegar á boltanum og halda fókus allan tímann. Við vorum komnar í það að ætla fara alltaf upp og skora tvö mörk úr hverri sókn og það er svolítið erfitt. En á endanum held ég að þetta hafi verið fyrst og síðast hugafarið hjá okkur. Við náðum ekki að láta þetta falla með okkur, ekki í dag og ekki í mörgum öðrum leikjum í sumar.“

Fylkiskonur eru fallnar úr Pepsi Max deildinni og munu því spila í Lengjudeildinni að ári. 

„Núna er það fyrst og fremst vonbrigði og svekkelsi að þetta sé niðurstaðan. Ég trúði að við myndum fara til Eyja og eiga hörkuleik þar til þess að halda okkur í þessari deild. Hvernig næsta tímabil verður er erfitt að segja en núna er maður bara vonsvikin með þessa niðurstöðu.“

Næsti leikur Fylkis og síðasti leikur Pepsi Max deildar kvenna er á móti ÍBV og vill Margrét spila upp á stoltið í þeim leik. 

„Ég held að það sem við þurfum að gera í ÍBV leiknum er að spila upp á stoltið. Mæta í þann leik og klára þann leik almennilega fyrir klúbbinn,“ sagði Margrét að lokum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×