Fótbolti

Aukaþing KSÍ fer fram 2. október

Valur Páll Eiríksson skrifar
Aukaþing KSÍ fer fram laugardaginn 2. október.
Aukaþing KSÍ fer fram laugardaginn 2. október. KSÍ/ksi.is

Knattspyrnusamband Íslands hefur boðað til aukaþings laugardaginn 2. október næst komandi. Þar verður nýr formaður auk nýrrar stjórnar sambandsins kosin.

KSÍ hefur verið í brennidepli í vikunni eftir að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir greindi frá ofbeldi og kynferðislegri áreitni sem hún varð fyrir af hálfu landsliðsmanns karla í fótbolta. Það gerði Þórhildur síðasta föstudag, degi eftir að Guðni Bergsson, fyrrum formaður KSÍ, sagði engin ofbeldismál hafa komið inn á borð sambandsins.

Fleiri sögur hafa flogið um ofbeldi landsliðsmanna og sá Guðni sig knúinn til að segja upp síðustu helgi vegna málsins. Þá sagði stjórn KSÍ einnig upp á mánudagskvöld og boðaði til aukaþings til að kjörin yrði ný stjórn. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, fór þá í leyfi í fyrradag.

KSÍ greindi frá því í dag að aukaþingið fari fram klukkan 11:00 laugardaginn 2. október næst komandi. Aðildarfélög sambandsins geta þar kjörið nýja stjórn og nýjan formann. Ekki liggur fyrir hvar þingið fer fram né með hvaða hætti vegna aðstæðna. Vera má að það fari rafrænt fram sökum kórónuveirufaraldursins.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, og Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, munu fylgjast grannt með komandi vikum hjá KSÍ líkt og greint var frá í morgun. Varast þurfi að sambandið verði ekki óstarfshæft með svo víðamiklum breytingum og situr núverandi stjórn fram að aukaþinginu í október svo truflanir verði ekki á starfsemi sambandsins á meðan, þar á meðal framkvæmd landsleikja bæði karla og kvenna.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fór á fund með stjórn KSÍ í vikunni og sagðist vilja jafna hlut karla og kvenna í stjórn sambandsins. Í fráfarandi stjórn eru 13 karlar og tvær konur.

Strangar reglur eru hins vegar hjá FIFA um pólitísk afskipti stjórnmálamanna af knattspyrnusamböndum ríkja. Nígería, Tjad og Pakistan eru á meðal ríkja sem hafa verið sett í keppnisbann af FIFA vegna afskipta stjórnvalda af knattspyrnusamböndum landanna.

Tilkynningu KSÍ má lesa í heild að neðan.

Aukaþing KSÍ verður haldið í Reykjavík laugardaginn 2. október 2021. Þingið verður sett kl. 11:00 og er gert ráð fyrir að því ljúki síðar sama dag. Nánari dagskrá ásamt frekari upplýsingum hefur verið send sambandsaðilum og má einnig sjá hér neðar í greininni. Í ljósi aðstæðna verður tilkynnt um þingstað þegar nær dregur.

Fyrirvari um rafrænt knattspyrnuþing: Stjórn KSÍ áskilur sér rétt til að halda rafrænt aukaþing ef reglugerð heilbrigðisráðherra heimilar ekki áætlaðan heildarfjölda gesta (þingfulltrúar, stjórn, starfsfólk og aðrir) á knattspyrnuþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×