Fótbolti

Lyon byrjar tímabilið á sigri án Söru

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sara Björk á von á barni í nóvember og er því ekki á leið aftur á fótboltavöllinn í bráð.
Sara Björk á von á barni í nóvember og er því ekki á leið aftur á fótboltavöllinn í bráð. Clive Brunskill/Getty Images

Olympique Lyonnais, lið landsliðsfyrirliðans Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, hóf tímabilið í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta með 3-0 sigri á Stade de Reims. Lyon freistar þess að endurheimta franska meistaratitilinn frá Paris Saint-Germain.

Lyon var að spila sinn fyrsta deildarleik undir stjórn Soniu Bompastor, sem tók við liðinu eftir að því mistókst að vinna franska meistaratitilinn í fyrsta sinn í 15 ár í vor. Paris Saint-Germain batt enda á 14 ára sigurgöngu Lyon er liðið hafnaði stigi á undan Lyon í harðri toppbaráttu.

Sara Björk Gunnarsdóttir var fjarverandi hjá Lyon, og verður framan af móti, vegna barneignarleyfis. Í hennar fjarveru vann liðið hins vegar nokkuð þægilegan 3-0 heimasigur gegn Reims í kvöld.

Lyon komst yfir eftir sex mínútna leik þegar hin kamerúnska Easther Mayi Kith skoraði sjálfsmark fyrir Reims og franska landsliðskonan Dalphine Cascarino tvöfaldaði forystu Lyon þegar aðeins tíu mínútur voru liðnar af leiknum.

Þá virtist stefna í markaveislu en Lyon náði hins vegar ekki að bæta við öðru marki fyrr en í uppbótartíma. Þá innsiglaði tvítugi varnarmaðurinn Selma Bacha 3-0 sigur liðsins.

Lyon hefur mótið því á sigri og er eitt á toppnum með þrjú stig, enda eina liðið í deildinni sem hefur spilað leik, ásamt Reims. Fjórir leikir fara fram á morgun og þá mætir PSG liði Fleury 91 í lokaleik umferðarinnar á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×