Fótbolti

Jorginho valinn leikmaður ársins hjá UEFA

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jorginho varð Evrópumeistari með Ítölum og spilaði stórt hlutverk í liði Chelsea sem vann Meistaradeild Evrópu.
Jorginho varð Evrópumeistari með Ítölum og spilaði stórt hlutverk í liði Chelsea sem vann Meistaradeild Evrópu. EPA-EFE/Justin Tallis

Ítalski miðjumaðurinn Jorginho var í dag valinn leikmaður ársins hjá UEFA. Tilkynnt var um verðlaunin samhliða því þegar dregið var í riðla Meistaradeildarinnar, en Jorginho vann þá keppni með Chelsea í fyrra, ásamt því að hampa Evrópumeistaratitlinum með Ítölum.

Vilinn var leikmaður ársins bæði í karla- og kvennaflokki, ásamt því að þjálfarar ársins voru útnefndir. Þá voru einnig veitt verðlaun fyrir þau bestu í hverri stöðu fyrir sig.

Liðsfélagar Joginho, þeir Edouard Mendy og N'Golo Kante voru einnig verðlaunaðir. Mendy var valinn markvörður ársins og Kante besti miðjumaðurinn. Þá var þjálfari þeirra, Thomas Tuchel, valinn þjálfari ársins.

Ruben Dias, leikmaður Manchester City, var valinn varnarmaður ársins og norski framherjinn Erling Håland var valinn framherji ársins.

Barcelona sópaði til sín verðlaunum

Í kvennaflokki fóru öll verðlaunin til leikmanna og þjálfara Barcelona, nema ein. Irene Paredes var valin varnarmaður ársins, en hún leikur með PSG.

eins og áður segir fóru öll önnur verðlaun í kvennaflokki til Börsunga. Lluis Cortes var valinn þjálfari ársins, Sandra Panos markvörður ársins, Alexia Putellas miðjumaður ársins og Jennifer Hermoso var valin framherji ársins. 

Alexia Putellas var einnig valin leikmaður ársins hjá UEFA.

Danskar herjur heiðraðar

Forsetaverðlaun UEFA voru einnig veitt í dag. Það voru Simon Kjær, fyrirliði danska landsliðins, og læknateymi liðsins sem hlaut þá viðurkenningu fyrir að bjarga lífi Christian Eriksen sem fór í hjartastopp í leik danska landsliðsins gegn Finnum á Evrópumótinu í sumar.

Verðlaunin

Karlaflokkur

  • Markvörður ársins: Edouard Mendy (Chelsea)
  • Varnarmaður ársins: Ruben Dias (Manchester City)
  • Miðjumaður ársins: N'Golo Kante (Chelsea)
  • Framherji ársins: Erling Håland (Dortmund)
  • Þjálfari ársins: Thomas Tuchel (Chelsea)
  • Leikmaður ársins: Jorginho (Chelsea)

Kvennaflokkur

  • Markvörður ársins: Sandra Panos (Barcelona)
  • Varnarmaður ársins: Irene Paredes (PSG)
  • Miðjumaður ársins: Alexia Putellas (Barcelona)

  • Framherji ársins: Jennifer Hermoso (Barcelona)

  • Þjálfari ársins: Lluis Cortes (Barcelona)

  • Leikmaður ársins: Alexia Putellas (Barcelona)

Forsetaverðlaun UEFA

  • Simon Kjær og danska læknateymið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×