Innlent

Allt að 533 prósenta hækkun á van­rækslu­gjaldi

Eiður Þór Árnason skrifar
Samkvæmt nýju reglugerðinni má nú fara með ökutæki í skoðun sex mánuðum fyrir skoðunarmánuð.
Samkvæmt nýju reglugerðinni má nú fara með ökutæki í skoðun sex mánuðum fyrir skoðunarmánuð. Vísir/vilhelm

Þann 1. maí hækkaði grunnfjárhæð vanrækslugjalds vegna óskoðaðra ökutækja úr 15.000 í 20.000 krónur. Þá fer gjaldið í 40.000 krónur vegna fólksflutningabíla fyrir níu farþega eða fleiri, vöruflutningabíla eða aftanívagna yfir 3,5 tonn.

Ný reglugerð um skoðun ökutækja tók gildi í maí en það er nýlunda í reglugerðinni að hafi ökutækið ekki verið fært til skoðunar eða skráð úr umferð innan tveggja mánaða frá álagningu vanrækslugjalds tvöfaldast gjaldið og fer í 40.000 krónur eða í 80.000 krónur vegna stærri ökutækja.

Sýslumaðurinn á Vestfjörðum vakti máls á þessu á dögunum en embættið sér um álagn­ingu og inn­heimtu vanrækslugjalds­. Með nýju reglugerðinni getur hækkun gjaldsins því numið allt að 375% vegna almennra ökutækja og 533% vegna stærri ökutækja þar sem gjaldið getur farið úr 15.000 í 80.000 krónur.

Nú hægt að fara fyrr í skoðun

„Til að afstýra álagningu eða hækkun álagningar þarf að færa ökutækið til skoðunar eða skrá það úr umferð með því að skila skráningarmerkjum til skoðunarstofu eða senda beiðni um tímabundna skráningu úr umferð til Samgöngustofu,“ segir í færslu á Facebook-síðu lögregluembættisins.

Gildir sú regla áfram að sé ökutæki fært til skoðunar innan mánaðar frá álagningu fæst 50% afsláttur af gjaldinu.

Samkvæmt nýju reglugerðinni má nú fara með öll ökutæki í skoðun sex mánuðum fyrir skoðunarmánuð sem er talsvert rýmri tími en áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×