Fótbolti

Hádramatískar lokamínútur í Lengjudeild karla

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gróttumenn fagna marki.
Gróttumenn fagna marki. Vísir/Vilhelm

Öllum fimm leikjum dagsins í Lengjudeild karla er nú lokið eftir að flautað var til leiksloka í leikjum Gróttu og Grindavíkur annars vegar, og Þróttar og Fram hinsvegar. Grótta vann 2-1 með sigurmarki á sjöttu mínútu uppbótartíma og Þróttur tryggði sér 2-2 jafntefli með marki á fjórðu mínútu uppbótartíma.

Sigurður Bjartur Hallsson kom Grindavík yfir gegn Gróttu á 24. mínútu eftir stoðsendingu frá Viktori Guðberg Haukssyni.

Kjartan Kári Halldórsson jafnaði metin tíu mínútum síðar þegar hann skoraði stórglæsilegt mark utan teigs, og staðan því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Það var svo ekki fyrr en á 96. mínútu sem að sigurmarkið lét loksins sjá sig. Kristófer Orri Pétursson tók þá hornspyrnu sem fann Sigurvin Reynisson, og hann stangaði boltann í netið með síðustu snertingu leiksins.

Grótta er því í fimmta sæti með 29 stig, sex stigum meira en Grindvíkingar sem stija í sjöunda sæti.

Það var boðið upp á sömu dramatíkina þegar að Þróttur R. tók á móti Fram. Viktor Hauksson kom Þrótturum yfir strax á fjórðu mínútu, áður en að Alexander Már Þorláksson jafnaði metin tuttugu mínútum síðar.

Staðan var því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks, en Þórir Guðjónsson kom Fram í 2-1 á 56. mínútu.

Líkt og í hinum leik kvöldsins kom seinasta markið ekki fyrr en með seinustu snertingu leiksins. Sam Hewson tók þau aukaspyrnu af rúmlega tuttugu metra færi og smellti boltanum í slánna og inn og lokatölur 2-2.

Þetta var mikilvægt stig fyrir Þróttara sem eru sem stendur í fallsæti með 11 stig, sjö stigum frá öruggu sæti. Framarar eru hinsvegar búnir að tryggja sæti sitt í efstu deild á næsta tímabili, og eru með 13 stiga forskot á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×