Fótbolti

Undra­barnið loks farið í frí eftir að spila á EM og Ólympíu­leikunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pedri í leik gegn Real Sociedad, viku eftir að hann lék til úrslita á Ólympíuleikunum.
Pedri í leik gegn Real Sociedad, viku eftir að hann lék til úrslita á Ólympíuleikunum. David S. Bustamante/Getty Images

Hinn 18 ára gamli Pedri spilaði stóra rullu hjá Barcelona á síðustu leiktíð. Þrátt fyrir ungan aldur var hann í stóru hlutverki hjá liðinu ásamt því að taka þátt á lokakeppni EM U-21 árs landsliða í mars. 

Í stað þess að fara í verðskuldað sumarfrí að loknu erfiðu tímabili hélt Pedri á Evrópumótið með A-landsliði Spánar. Í kjölfarið fór hann á Ólympíuleikana í Tókýó í Japan með U-23 ára liði Spáni.

Pedri byrjaði alla leiki Spánar á EM þar sem liðið fór í undanúrslit en beið lægri hlut gegn Ítalíu í vítaspyrnukeppni. Raunar lék Pedri alla leiki liðsins nema einn frá upphafi til enda. Hann var tekinn af velli á 119. mínútu gegn Sviss í 8-liða úrslitum.

Að mótinu loknu var Pedri valinn besti ungi leikmaður EM. Hann fékk þó ekki langan tíma til að njóta þess né svekkja sig á tapinu gegn Ítalíu þar sem hann var mættur á Ólympíuleikana aðeins nokkrum dögum síðar.

Þar biðu hans önnur vonbrigði en Spánn fór alla leið í úrslit þar sem liðið beið lægri hlut gegn Brasilíu. Aftur byrjaði hann alla leiki liðsins en að þessu sinni spilaði hann „aðeins“ þrjá leiki frá upphafi til enda. 

Viku eftir úrslitaleikinn gegn Brasilíu var Pedri mættur í byrjunarlið Börsunga er liðið vann Real Sociedad 4-2 í fyrstu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar. Pedri tók einnig þátt í 1-1 jafntefli Barcelona og Athletic Bilbao en hefur nú birt mynd á Instagram-síðu sinni þar sem hann sýnir að hann er loks á leið í frí.

Undir „story“ á Instagram má sjá Pedri að slaka af og njóta þess að vera kominn í vægast sagt verðskuldað frí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×